Fara í efni

Gætum við mögulega valið að ganga eða hjóla oftar?

15.03.2022 Fréttir

Í Múlaþingi búum við íbúar við þann munað að vegalengdir á milli staða innanbæjar eru oftast stuttar. Í reynd það stuttar að það er líklegt að hægt sé að ganga þær á 10-15 mínútum og hjóla á enn styttri tíma. Þó er það svo að við veljum ansi oft að setjast upp í bíl frekar en að klæða okkur örlítið betur og halda af stað gangandi eða hjólandi.

En það er nú svo að breyttar ferðavenjur geta haft víðtæk áhrif, bæði á andlega og líkamlega heilsu, á bankareikninginn og á umhverfið.

Að velja oftar að ganga eða hjóla, þau okkar sem geta það, eykur hreyfingu og útiveru. Það hefur þá gjarnan í för með sér betri andlega og líkamlega heilsu, sem aftur getur dregið úr álagi á heilbrigðiskerfið.

Að velja oftar að ganga eða hjóla, nú eða nota rafhlaupahjól eða aðra virka ferðamáta, dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ef við flest veljum að nýta aðra ferðamáta en bílinn aðeins oftar þá næst mestur árangur í markmiðum um losun á þeim.

Til að hvetja fólk til að skoða sínar ferðavenjur unnu Orkusetur og Vistorka að verkefni, tæknilausn, sem snýst um að allir íbúar geti fullnægt flestum þörfum sínum í stuttri göngu- eða hjólaferð frá heimili sínu. Verkefnið samanstendur af vefsíðu, appi og prentuðu korti og segir einn af hönnuðum verkefnisins fólk oft vanmeta hversu langt það kemst án þess að nota einkabílinn.

Nefnist lausnin kortER og er hægt að fletta upp sínu heimili, vinnustað eða annarri staðsetningu til að komast að því hversu langt þaðan viðkomandi kemst á 15 mínútum.

Það er óhætt að hvetja til þess að kíkja á kortER og athuga hvort að við gætum mögulega skilið bílinn oftar eftir heima.

Gætum við mögulega valið að ganga eða hjóla oftar?
Getum við bætt efni þessarar síðu?