Fara í efni

Greinargerð Cruise Iceland vegna aðgerðaráætlunar ferðamálastefnu 2030

22.11.2023 Fréttir Borgarfjörður Djúpivogur Seyðisfjörður

Cruise Iceland hefur komið á framfæri sjónarmiðum sínum með eftirfarandi greinargerð til að bregðast við vinnu sjö starfshópa sem fjallað hafa um málaflokka eins og sjálfbærni og orkuskipti, samkeppnishæfni og verðmætasköpun, rannsóknir og nýsköpun, uppbyggingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónustu og svo menningartengda ferðaþjónustu eins og kostur er gefinn á í samráðsgátt stjórnvalda.

Þau atriði sem Cruise Iceland fjallar helst um varða helst útfærslu fyrirhugaðrar álagsstýringar á fjölsóttum áfangastöðum og innviðauppbyggingu (innviðagjalds). Þá er einnig fjallað um
gistináttaskatt sem hefði átt að koma til skoðunar hjá starfshópunum og frumvarp þar að lútandi sem þegar hefur verið lagt fram.

Meginrök Cruise Iceland hvað varðar hagsmuni skemmtiferðaskipa byggja á því að engar ákvarðanir um hagsmuni skemmtiferðaskipa verði teknar án þátttöku hagaðilans í nefndum eða starfshópum en starfshópur sá sem leiddur er af Sigríður Dögg Guðmundsdóttir er skipaður fjölda hagaðila úr ferðaþjónustu en þó situr þar enginn fulltrúi skemmtiferðaskipa. Þá benda Cruise Iceland á að þrátt fyrir að stjórnvöld hafi ekki markað langtímastefnu fyrir ferðaþjónustuna hefur verið starfað um margra ára skeið eftir þeirri stefnu, að dreifa beri ferðamönnum um landið. Hægt er að staðhæfa að enginn geiri ferðaþjónustunnar dreifi ferðamönnum um landið betur en skemmtiferðaskipin.

Sé vilji til þess að beita álagsstýringu á ferðamannastöðum hljóti slíkt alltaf að verða gert á almennum forsendum og með hliðsjón af reglum um meðalhóf og jafnræði. Cruise Iceland hefur
jafnframt lýst þeirri skoðun að almennar aðgangstýringar henti útgerðum skemmtiferðaskipa almennt vel enda er öll þjónusta og afþreying þeim tengd skipulögð með allt að tveggja ára fyrirvara. Cruise Iceland eru ekki á móti álagsstýringarkerfi svo lengi sem það er almenns eðlis og taki til allra ferðamanna, alls landsins, alls ársins og allra þátta ferðaþjónustunnar en sé ekki sérstaklega beint gegn hagsmunum félaga innan samtakanna.

 

Hér má sjá ítarlegri upplýsingar úr greinargerð Cruise Iceland.

Greinargerð Cruise Iceland vegna aðgerðaráætlunar ferðamálastefnu 2030
Getum við bætt efni þessarar síðu?