Fara í efni

Grunnskólanemum boðið í leikhús

29.04.2025 Fréttir

Það var líf og fjör í Sláturhúsinu-menningarmiðstöð á Egilsstöðum í gær þegar um 300 nemendur af miðstigi í grunnskólum Múlaþings og á Vopnafirði mættu á staðinn til að sjá leikritið Orri óstöðvandi í uppsetningu Þjóðleikhússins.

Um er að ræða nýja sýningu sem byggir á geysivinsælum bókum Bjarna Fritzsonar um Orra og vinkonu hans Möggu Messi. Undanfarnar vikur hefur sýningin gengið fyrir fullu húsi grunnskólanema í Reykjavík en þessa dagana ferðast aðstandendur sýningarinnar með hana um allt land. Ekki var annað að sjá en að áhorfendur væru ánægðir með sýninguna enda eru uppátækjum þeirra Orra og Möggu engin takmörk sett.

„Það er afar dýrmætt að Þjóðleikhúsið skuli standa fyrir sýningarferðalögum sem þessum og leitist þannig við að jafna aðgengi íslenskra barna að Þjóðleikhúsinu okkar allra“, segir Elsa Guðný Björgvinsdóttir, deildarstjóri menningar hjá Múlaþingi. „Aðstaðan til að taka á móti svona uppsetningum er til fyrirmyndar í Sláturhúsinu og vonandi eigum við eftir að fá fleiri sýningar til okkar á næstu misserum.“

Það eru þau Almar Blær Sigurjónsson og Selma Rán Lima sem fara með hlutverk Orra og Möggu en leikgerð og leikstjórn er í höndum Völu Fannell. Tónlistin í sýningunni er eftir þá félaga Jóhannes Damian R. Patreksson (JóPé) og Kristinn Óla S. Haraldsson (Króla). Fjögur lög úr sýningunni hafa nú verið gefin út og eru þau aðgengileg á tónlistarveitum.

Grunnskólanemum boðið í leikhús
Getum við bætt efni þessarar síðu?