Fara í efni

Hafnarhús Borgarfjarðar eystra tilnefnt til Mies van der Rohe verðlaunanna

Ljósmyndari Christopher Lund.
www.chris.is
Ljósmyndari Christopher Lund.
www.chris.is

Nýtt Hafnarhús á Borgarfirði eystra er tilnefnt til hinna mikilsvirtu Mies van der Rohe verðlauna Evrópusambandsins 2022. Um er að ræða ein virtustu verðlaun á sviði byggingarlistar sem hægt er að hljóta og eru þau veitt fyrir byggingarlist sem sýnir fram á einstakt félagslegt, menningarlegt og tæknilegt samspil. Á lista tilnefninga er Hafnarhúsið í hópi margra öflugra verkefna en listinn var opinberaður í gær 3. febrúar. Frekari upplýsingar um Mies van der Rohe verðlaunin má nálgast hér.

Um Hafnarhúsið

Örfáum metrum yfir sjávarmáli, þar sem landhalli og athafnasvæði hafnarinnar mætast er nýja Hafnarhúsið á Borgarfirði eystra staðsett. Mannvirkið er þjónustubygging sem veitir umgjörð um fjölbreytta starfsemi fyrir ferðamenn, sjómenn og íbúa í nágrenninu.

Einföld og hrein lögun byggingarinnar, ferningslaga úthliðar með skörpum línum og fleygskornum flötum, að innan sem utan, myndar náin tengsl byggingarinnar við höfnina, hólmann, himininn og hafið.

Sagan

Árið 1972 var sundinu lokað á milli lands og hólma og var höfnin þannig mynduð. Fljótlega eftir það tók Magnús Þorsteinsson, þáverandi sveitarstjóri, eftir því að fólk var gjarnt að líta upp í hólma eftir lundanum. Áhugi jókst ár frá ári og var smíðaður stigi upp í hólmann árið 2000 til að bæta aðgengi að fuglinum. Þá fjölgaði ferðafólki verulega og árið 2015 var tekin ákvörðun að bæta aðstöðuna við höfnina enn fremur. Þá var efnt til hönnunarsamkeppni á nýju hafnarhúsi á Borgarfirði eystra í samstarfi við Arkitektafélag Íslands. Dómnefndina skipuðu Þórhallur Pálsson arkitekt, Logi Már Einarsson arkitekt og Kristján Helgason tæknifræðingur og bárust henni 10 tillögur. Fyrstu  verðlaun hlaut stofan Andersen & Sigurdsson Arkitektar sem staðsett er í Kaupmannahöfn.

,,Þetta var alveg ótrúlega skemmtilegt verkefni fyrir okkur á stofunni og við áttum einstaklega gott samstarf við Jón [Þórðarson þáverandi sveitarstjóra] og Hugrúnu [Hjálmarsdóttur hjá EFLU]. Það er einstaklega gaman að takast á við verkefni þar sem aðstæður skipta svo gríðarlega miklu máli,“ segir Þórhallur Sigurðsson eigandi arkitektstofunnar Andersen & Sigurdsson Arkitektar. „Borgarfjörður eystri er ekki í alfaraleið og þangað getur verið erfitt aðgengi yfir vetrartímann. Þar er einstök náttúrufegurð og lítið
samfélag. Allir þessir þættir höfðu áhrif á nálgun okkar við verkefnið og sjálfa úrlausnina.“

Tilnefning til Mies van der Rohe verðlaunanna setur verkefnið í alþjóðlegt samhengi og er góð landkynning. Þórhallur segir stofuna stolta af því ef hönnun byggingarinnar getur átt þátt í að efla uppbyggingu á staðnum. „Mikilvægt er að hlúa vel að þeim mörgu sérstöku og fallegu stöðum sem finnast á Íslandi. Við teljum að byggingin komi til með að tryggja betri aðstöðu fyrir bæði sjómenn, íbúa staðarins og gestkomandi og geti átt þátt í að stuðla að betra manngerðu umhverfi umhverfis vinsæla ferðamannastaði á Íslandi.“

Helstu einkenni byggingarinnar

Með bættri aðstöðu fyrir hafnarstarfsemina og innviðauppbyggingu fyrir ferðaþjónustuna, kemur mannvirkið til með að leggja sitt af mörkum til að stuðla að sjálfbærri þróun samfélagsins. Byggingin þjónustar sjómenn, heimafólk og ferðamenn og er fjölbreyttri starfsemi á svæðinu fléttað saman á einfaldan en afgerandi hátt í tiltölulega litlu mannvirki. Innra skipulag byggingarinnar veitir góða upplifun fyrir gesti og gangandi á ferð um þrjár hæðir byggingarinnar, þar sem fleygskorin rými, að innan sem utan, bjóða upp á fjölbreytt og ólík sjónarhorn til stórbrotinnar náttúru staðarins. Utanáliggjandi rými byggingarinnar eru óaðskiljanlegur hluti mannvirkisins og mynda náin tengsl byggingarinnar við umliggjandi umhverfi. Með fábrotnu efnisvali, skýrri lögun byggingar og einfaldleika í hönnun, fellur mannvirkið áreynslulaust að umhverfinu.

Hönnunin
Við hönnun byggingarinnar var leitast eftir að skapa byggingu með viðnámsþrótt í orðsins fyllstu merkingu - gagnvart veðri og vindum, snjóálagi og seltu frá sjónum; gagnvart daglegri notkun gesta, sem og tískusveiflum og tíðaranda. Endurspeglast þessi viðleitni í einfaldri hönnun og óhefluðum frágangi.

Byggingin, sem er á þremur hæðum og rúmir 300m2, er teningslaga með stiga sem staðsettur er skáhallandi um miðbik byggingarinnar sem myndar fleygskorin rými að innan og utan. Útsýnisstaðir snúa í ólíkar áttir frá mismunandi hæðum í húsinu og bjóða upp á fjölbreytta upplifun í nánum tengslum við umhverfið. 

Sjá myndband af byggingunni


Getum við bætt efni þessarar síðu?