Fara í efni

HEF veitur freista þess að hitaveituvæða Djúpavog

14.03.2023 Fréttir

HEF veitur reka hitaveitu sem sér Egilsstöðum og Fellabæ fyrir heitu vatni en jarðhitavinnslan er við Urriðavatn í Fellum. Fyrirtækið er í eigu Múlaþings en þegar sveitarfélagið varð til við sameiningu tóku HEF veitur við veitustarfsemi í öllum kjörnum.

Á Djúpavogi hefur lengi verið vitað af jarðhita skammt frá bænum í landi sveitarfélagsins. Þar hafa hingað til aðeins verið boraðar könnunarholur og upp vellur lítilræði af heitu vatni. Heimamenn og gestir hafa stundum baðað sig þar í körum en nú eftir frekari rannsóknir er búið að staðsetja vinnsluholu.
HEF veitur ætla að ráðast í borun í vor en leitast verður eftir styrk úr Orkusjóði enda snýst borunin um að hitaveituvæða Djúpavog sem nú er kyntur með rafmagni.

Öflugur bor verður fenginn á staðinn og í leiðinni á einnig að bora vinnsluholu í landi Breiðavaðs og Mýness skammt frá Egilsstöðum, náist samningar við landeigendur. Tilgangur þeirrar holu er að treysta heitavatnsöflun á Héraði þar sem notkun hefur aukist en heita vatnið undan Urriðavatni er ekki óþrjótandi. Notkun á eftir að aukast þegar hitaveita verður lögð út í Eiða og einnig hefur verið ræddur möguleiki á að dæla heitu vatni um fyrirhuguð Fjarðarheiðargöng til Seyðisfjarðar.

HEF veitur freista þess að hitaveituvæða Djúpavog
Getum við bætt efni þessarar síðu?