Fara í efni

“Hinseginvika” í fullum gangi í öllum félagsmiðstöðvum Múlaþings

Hinsegin föndurkvöld, kvikmyndaklúbbur með hinsegin þema, hinsegin trúnó, heimsókn frá Hinsegin Austurlandi og hinsegin spurningakeppni er meðal þess sem unglingum Múlaþings býðst í félagsmiðstöðvunum sínum þessa vikuna.

“Þetta er mjög skemmtilegt, krakkarnir taka virkan þátt og það skapast rými fyrir fræðslu og mikilvæg samtöl um fjölbreytileikann,” segir Árni Pálson, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Nýungar á Egilsstöðum.

Á Hinsegin föndurkvöldinu í Nýung urðu til hinir skrautlegustu fánar sem prýða nú miðstöðina eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. “Við erum að undirbúa trúnókvöld og heimsókn frá Hinsegin Austurlandi akkúrat núna. Unglingarnir hafa sent inn nafnlausar spurningar svo það má búast við líflegum og góðum umræðum,” segir Árni sem hefur sinnt forstöðumannsstarfinu í 9 ár.

Hluti af starfi félagsmiðstöðvanna í Múlaþingi snýr að fræðslu og forvörnum og eru þemavikur sem þessi mikilvægur þáttur í því starfi. Í febrúarmánuði verður önnur þemavika þegar félagsmiðstöðvarnar taka þátt í “Viku Sex” sem er árlegt átak í kynfræðslu. Áherslan í ár er lögð á kynlíf og menningu; birtingarmynd kynlífs í sjónvarpi, bókum og klámi.


Getum við bætt efni þessarar síðu?