Fara í efni

Höttur í bikarkeppni

10.01.2023 Fréttir

Körfuboltalið Hattar er í undanúrslitum í VÍS bikarkeppni Körfuknattleikssambands Íslands og markar það stórt afrek fyrir íþróttafélag á Austurlandi. Þetta er í fyrsta skipti í sögu Hattar og vonandi ekki það síðasta sem liðið spilar sig upp í bikarkeppni KKÍ og markar þar með stór spor í sögu deildarinnar og Íþróttafélagsins Hattar. Strákarnir allir sem einn eru búnir að leggja mikið á sig til að ná þessum árangri og mæta þeir Vali í Laugardalshöllinni annað kvöld
11. janúar klukkan 20:00. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV2 og hægt verður að fara á Tehúsið á Egilsstöðum og fylgjast þar með leiknum á risatjaldi. 

Mikill fjöldi stuðningsfólks af Austurlandi mun leggja leið sína í höllina annað kvöld og samkvæmt stuðningsmannasíðu Hattar á Facebook má með sanni segja að Austfirðingar ætli að skera sig úr hópnum þar sem meginþorri stuðningsmanna stefnir á að sprengja húsið með gæsaflautum og trommusettum. Stemningin verður áþreifanleg og sama hvað, þá er gjörvallt Austurland gríðarlega stolt af árangri Hattar.

Múlaþing er stoltur styrktaraðili Hattar og óskar liðinu góðs gengis til sigurs.

SS

Höttur í bikarkeppni
Getum við bætt efni þessarar síðu?