Fara í efni

Hreinsunarstarf á Seyðisfirði

19.01.2021 Fréttir Aurskriður á Seyðisfirði

Síðustu vikur hefur verið unnið að hreinsunarstarfi á Seyðisfirði, meðal annars á áhrifasvæði stóru skriðunnar er féll 18. desember við svokallaðan Múla. Þar er um hús að ræða við Hafnargötu númer 10, 11, 12, 14, 15, 16b og 18c. Svæðið telst vinnusvæði þar sem óviðkomandi er bannaður aðgangur. Stórvirkar vélar eru notaðar við hreinsunarstarf og gerð varnargarðs ofan við fyrrnefnd hús.

Þá hefur Múlaþing, ásamt fulltrúa Ofanflóðasjóðs, lagt til að hættumati verði flýtt á svæði utan við stóru skriðuna vegna húsa sem eru sitt hvoru megin við Stöðvarlæk. Óvissa ríkir varðandi íbúðabyggð þar til framtíðar.

Ríkislögreglustjóri hefur því ákveðið í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi og Veðurstofu Íslands að aflétta ekki hættustigi á Seyðisfirði meðan hreinsunarstarf er enn í gangi samanber ofangreint, unnið að gerð varnargarðs og frummatsskýrslu beðið fyrir svæðið utan við skriðu.

Á meðan kalt er í veðri og ekki rigning, telur Veðurstofan að ekki sé yfirvofandi skriðuhætta. Á næstu mánuðum má búast við að rýmt verði í öryggisskyni þegar og ef veðurspá er óhagstæð. Unnin hafa verið drög að reitaskiptri rýmingaráætlun til þess að bregðast við slíkum aðstæðum. Áætlunin verður unnin í samráði við íbúa Seyðisfjarðar og kynnt þegar hún verður tilbúin.

 

Hreinsunarstarf á Seyðisfirði
Getum við bætt efni þessarar síðu?