Fara í efni

Hugmyndasamkeppni hafin

Múlaþing, í samvinnu við Félag íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA), auglýsti í vor eftir þátttakendum í forval vegna hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun útsýnisstaðar við snjóflóðavarnargarða á fjallinu Bjólfi í Seyðisfirði.

Bjólfur er eitt af tignarlegri fjöllum Seyðisfjarðar og er 1085m að hæð, en útsýnissvæðið sjálft er í um 600m hæð og er gott útsýni þaðan yfir fjörðinn og á haf út.

Markmið samkeppninnar er að auka útsýnis- og náttúruupplifun svæðisins ásamt því að tryggja öryggi gesta á svæðinu. Ekki síður er markmiðið að gera svæðið að eftirsóknarverðum ferðamannastað á Austurlandi, enda svæðið talinn líklegur segull ferðamanna í Áfangastaðaáætlun Austurlands og uppbygging þar því mikilvæg. Verkefnið fékk styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Hugmyndasamkeppnin hófst formlega 5. júlí, en 12 teymi sóttust eftir þátttöku í samkeppninni. Fjögur teymi komust áfram og munu nú vinna að tillögum um svæðið, en þau njóta nafnleyndar á meðan á samkeppninni stendur. Áætlað er að dómnefnd ljúki störfum sínum 15. október og verður spennandi að sjá hvaða tillaga mun bera sigur úr bítum.

 

Óvenjumikill snjór hefur verið á svæðinu og ekki hefur reynst mögulegt að opna vegslóða að útsýnissvæðinu fyrir umferð akandi vegna snjóa. Áætluð opnun er um miðjan júlí og ættu þá áhugasamir að geta virt fyrir sér útsýnið yfir fjörðinn frá núverandi útsýnissvæði.

Vert er að taka fram að vegslóðinn er aðeins fær fjórhjóladrifnum bílum.

Ganga að svæðinu er auðveld meðfram vegslóðanum og má leggja bílum við upplýsingaskilti við upphaf vegslóðans. Vegslóðinn liggur frá Fjarðarheiði, rétt neðan við Stafdal, og er um 5km.

 


Getum við bætt efni þessarar síðu?