Fara í efni

Hvað er að frétta? Frá Bókasafni Héraðsbúa

02.09.2024 Fréttir Egilsstaðir

Gaman er að segja frá því að metaðsókn var að Bókasafninu í sumar þar sem gestafjöldinn var mun meiri í ár en síðasta sumar. Það er þrátt fyrir að sumarið 2023 hafi aðsóknin líka verið meiri en áður.

Boðið hefur verið upp á sumarlestur í allt sumar þar sem þemað var Ofurhetjur og allir þátttakendur fengu ofurhetjuspil sem var um leið lestrarhvetjandi. Þátttakan var góð og var dregin út vinningshafi meðal þátttakenda aðra hverja viku í sumar. Í haust verður svo uppskeruhátíð sumarlestursins sem verður nánar auglýst síðar.

Framundan eru svo ýmsir viðburðir og ber þá fyrst að nefna Töfrasmiðjur en Bókasafnið fékk styrk frá Bókasafnasjóði fyrir þeim. Um er að ræða smiðjur fyrir átta til tólf ára börn, ein smiðja á hverju almenningsbókasafni Múlaþings og eru þær í samstarfi við BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna. Einnig verða smiðjur fyrir eldri borgara og fyrir fatlað fólk á Bókasafni Héraðsbúa. Þessar smiðjur eru þátttakendum að kostnaðarlausu en skráning er nauðsynleg þar sem þátttakendafjöldi er takmarkaður.

Í vetur verður áfram boðið upp á lestrarstundir fyrir yngri börnin mánaðarlega og eru þær auglýstar sérstaklega.

Rauði krossinn er farinn aftur af stað með Tungumálakaffið sitt á Bókasafninu alla fimmtudaga frá klukkan 16:30 til 18:00 og eru öll velkomin.

Fleira er svo framundan þegar líður á haustið, meðal annars dagskrá í tengslum við Daga myrkurs.

Að lokum er rétt að minna á næsta stóra viðburð Bókasafnsins sem er Glæpakviss sem er haldið samtímis á fjölmörgum bókasöfnum landsins. Um er að ræða spurningakeppni um íslenskar glæpasögur þar sem fyrirkomulagið er svipað og á pöbbkvissum og þrjátíu spurningar bornar upp um íslenska krimma fyrr og síðar.

Glæpakvissið verður haldið fimmtudaginn 5. september á Tehúsinu og hefst klukkan 17:30. Það er tilvalið að nýta tímann fram að því og heimsækja Bókasafnið og fá lánaða nokkra íslenska krimma en þema septembermánaðar er einmitt helgað íslenskum glæpasagnahöfundum.

Viðburðir á vegum Bókasafnsins eru auglýstir á samfélagsmiðlum safnsins og hvetjum við öll til að fylgja okkur á Facebook og Instagram. Einnig setjum við upplýsingar um viðburði inn í viðburðadagatal á vef Múlaþings.

Verið öll velkomin á Bókasafnið.

Hvað er að frétta? Frá Bókasafni Héraðsbúa
Getum við bætt efni þessarar síðu?