Fara í efni

Hvatasjóður Seyðisfjarðar úthlutar 55 milljónum

Hvatasjóður Seyðisfjarðar úthlutaði í gær, 16. febrúar, 55 milljónum til 17 verkefna er varða atvinnuuppbyggingu á Seyðisfirði. Þetta er önnur úthlutun sjóðsins en hann er stærsti einstaki þáttur Seyðisfjarðarverkefnis stjórnvalda, Múlaþings og Austurbrúar.

Eins og á fyrsta ári Hvatasjóðsins einkenndust umsóknir af miklum metnaði en alls bárust 36 umsóknir frá 28 aðilum. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á verkefni sem varða uppbyggingu atvinnuhúsnæðis enda ljóst að þar er mikið verk framundan. Fjölmargar umsóknir bárust og var ákveðið að veita ríflega 25 af 55 milljónum til sex aðila til að vinna að slíkum verkefnum.

Þetta kemur fram á heimasíðu Austurbrúar, en þar má finna upplýsingar um þau verkefni sem hlutu styrk að þessu sinni.


„Hvatasjóður Seyðisfjarðar úthlutar nú öðru sinni til verkefna er varða atvinnuuppbyggingu í byggðalaginu. Sjóðurinn er stærsti einstaki þáttur Seyðisfjarðarverkefnis stjórnvalda, Múlaþings og Austurbrúar en stefnan er að virkja frumkvæði íbúa og annarra sem tengjast byggðalaginu, svo og að koma til móts við móts við þá atvinnurekendur og einstaklinga í atvinnurekstri sem orðið hafa fyrir tjóni. Eins og á fyrsta ári Hvatasjóðsins einkenndust umsóknir af miklum metnaði en alls bárust 36 umsóknir frá 28 aðilum. Sótt var um ríflega 220 milljónir en úthlutað var 55 milljónum til 17 verkefna. Þau eru fjölbreytt og sum hver stór í sniðum og bera vitni því einstaka hugarfari sem einkennir Seyðfirðinga.

Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á verkefni sem varða uppbyggingu atvinnuhúsnæðis enda ljóst að þar er mikið verk framundan. Fjölmargar umsóknir bárust og var ákveðið að veita um 25 milljónum til sex aðila til að vinna að slíkum verkefnum. Það þarf ekki að fjölyrða um að verkefnisstjórninni var vandi á höndum við valið, enda mörg áhugaverð og mikilvæg verkefni sem sótt var um. Þá var, eins og við fyrstu úthlutunina 2021, áhersla lögð á að koma til móts við þann atvinnurekstur sem orðið hefði fyrir tjóni en einnig var horft til verkefna sem stuðla að nýsköpun og þróun, aukinni sjálfbærni, sýnileika svæðisins og hafa ríkt samfélagslegt gildi.

Ég þakka fagráði sjóðsins sem lagði á sig mikla vinnu við mat á umsóknum, verkefnastjórn Hvatasjóðsins og starfsfólki Austur ­ brúar. Öllum umsækjendum vil ég svo þakka sérstaklega, og vona að við munum ekki aðeins sjá þær hugmyndir lifna við sem hlutu brautargengi að þessu sinni. Áhuginn og metnaðurinn sem birtist í umsóknum í sjóðinn gefa okkur svo sannarlega ástæðu til bjartsýni um framhaldið.“ segir Gauti Jóhannesson formaður verkefnastjórnar Hvatasjóðs Seyðisfjarðar.


Getum við bætt efni þessarar síðu?