Fara í efni

Íbúar hvattir til að skrá dýr sín hjá sveitarfélaginu

04.03.2024 Fréttir Borgarfjörður Djúpivogur Egilsstaðir Seyðisfjörður

Í Múlaþingi er tiltekið dýrahald leyfilegt að uppfylltum skilyrðum sem kveðið er á um í viðkomandi samþykktum. Sækja þarf um leyfi til að halda dýr sem falla undir samþykktirnar en það er gert í gegnum íbúagátt sveitarfélagsins.

Skráning dýra hjá Dýraauðkenni jafngildir ekki skráningu hjá sveitarfélaginu. Vanræki íbúar að skrá dýr sín hjá sveitarfélaginu getur það varðað sektum.

Hundar og kettir eru skráningarskyldir frá 3 mánaða aldri, en auk þess þarf að skrá dýr innan mánaðar eftir að það kemur á nýtt heimili. Þetta á jafnframt við um hunda í dreifbýli en þeir eru undanþegnir skráningargjaldi. Þá þarf að tilkynna afskráningu innan mánaðar ef hundur eða köttur skiptir um heimili eða deyr.

Eigendur hunda og katta geta sótt um 50% afslátt af leyfisgjöldum sveitarfélagsins sýni þeir fram á að hundar hafi sótt hlýðninámskeið og kettir hafi farið í ófrjósemisaðgerð. Innifalið í leyfisgjaldi er ormahreinsun, trygging gagnvart þriðja aðila, hluti dýraeftirlitskostnaðar og fleira.

Þá eru nýmæli að tiltekið fuglahald í þéttbýli sé leyfisskylt. Óheimilt er að halda hænsnfugla, andfugla og dúfur án leyfis. Hanar eru með öllu óheimilir utan lögbýla. Þá þarf jafnframt að tilkynna afskráningu ef fuglahaldi er hætt.

Byggingarleyfi fyrir fuglakofa er háð gildandi ákvæðum byggingarreglugerðar á hverjum tíma en frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu sveitarfélagsins. Sem stendur er fuglahald án leyfisgjalda.

Verkefnastjóri umhverfismála hefur umsjón með skráningu og umsýslu gæludýrahalds. Frekari upplýsingar um dýrahald má finna á heimasíðu sveitarfélagsins eða með því að senda póst á umhverfisfulltrui@mulathing.is.

Íbúar hvattir til að skrá dýr sín hjá sveitarfélaginu
Getum við bætt efni þessarar síðu?