Þá er hin árlega Íþróttavika Evrópu hafin og er hún uppfull af fjölbreyttum og skemmtilegum viðburðum og eru íbúar á öllum aldri hvattir til að taka virkan þátt.
Á meðal þess sem er í boði er skriðsundsnámskeið fyrir fullorðna, prikhestanámskeið, leiktími fyrir fjölskyldur, jóga, opnar æfingar hjá íþróttafélögum þar sem börn og ungmenni geta prófað sig áfram, hlaupaæfing, lyftingaræfing og fleira.
„Við erum ánægð að geta boðið íbúum upp á fjölbreytta dagskrá þar sem hægt er að finna sér eitthvað við sitt hæfi, hvort sem það felst í að prófa nýja hreyfingu eða taka þátt í umræðum um þróun íþróttamála á svæðinu. Meðal annars verður haldið virkniþing fyrir eldri borgara þar sem rætt verður um mikilvægi alhliða heilsu, auk málstofu um íþróttastarf barna og ungmenna í sveitarfélaginu“ segir Dagný Erla Ómarsdóttir, deildarstjóri íþrótta og tómstunda.
Dagskrá vikunnar er aðgengileg á heimasíðu Múlaþings og birtist einnig í Dagskránni. Einstaka viðburðir verða kynntir á Facebook.
Íþróttavika Evrópu (European Week of Sport) er haldin árlega í rúmlega 30 löndum. Markmiðið er að sporna við hreyfingarleysi almennings með því að kynna fjölbreyttar leiðir til hreyfingar og íþróttaiðkunar. Múlaþing tekur þátt í framtakinu í samstarfi við ÍSÍ.
