Fara í efni

Íþróttavikan aldrei eins lífleg og í ár

04.10.2021 Fréttir

Nýafstaðin Íþróttavika Evrópu var tekin með trompi í Múlaþingi enda íþróttastarf í sveitarfélaginu gríðarlega öflugt. Margar deildir innan íþróttafélaganna í sveitarfélaginu opnuðu dyrnar fyrir öllum sem vildu prófa með opnum æfingum í öllu frá bardagaíþróttum að blaki.

Ragnar Magnús Þorsteinsson, landsliðsþjálfari Íslands í hópfimleikum unglinga átti tvo daga með Fimleikadeild Hattar í tilefni af íþróttavikunni. „Áhuginn á fimleikum er gríðarlegur á Egilsstöðum og það er alltaf gaman að koma hingað. Höttur á mjög efnilegt lið sem stefnir á Norðurlandamót og ég verð að segja að þau lofa virkilega góðu,“ segir Ragnar Magnús.

Einnig fékk badmintondeildin aðstoðarlandsliðsþjálfarann Atla Jóhannesson á æfingu til sín sem opin var öllum.

Opnir fræðslufyrirlestrar voru haldnir á Egilsstöðum en sendir út með fjarfundabúnaði í aðra kjarna. Margrét Lára Viðarsdóttir, sálfræðingur og fyrrverandi landsliðskona í fótbolta hélt fyrirlestur ásamt Einar Erni, sjúkraþjálfara, um andlega og líkamlega heilsu íþróttafólks. Fyrirlesturinn var vel sóttur af bæði íþróttafólki á öllum aldri og þjálfurum.

Fresta þurfti tveimur fyrirlestrum vegna veðurs en til stendur að halda þá í októbermánuði. Þeir verða auglýstir sérstaklega á Facebooksíðu Múlaþings.

Íþróttavikan aldrei eins lífleg og í ár
Getum við bætt efni þessarar síðu?