Fara í efni

Kjarval á Austurlandi

13.06.2025 Fréttir Seyðisfjörður

Sýningin Kjarval á Austurlandi verður opnuð í Skaftfelli á Seyðisfirði á þjóðhátíðardaginn kl. 16:00. Þar gefst einstakt tækifæri til að skoða landslagsmyndir frá Austurlandi eftir Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885-1972) en sýningin er samstarfsverkefni Listasafns Íslands og Skaftfells, miðstöðvar myndlistar á Austurlandi.

Jóhannes Kjarval var einn af frumherjum íslenskrar nútímamyndlistar. Á sýningunni verða sýnd olíumálverk sem og vatnslita- og grafíkmyndir sem spanna tímabilið frá 1919 til 1960. Sum verkanna birta sýn Kjarvals á þekkta staði, svo sem Dyrfjöll og Strandartind á Seyðisfirði, en önnur skírskota til alþýðutrúar og sýna ímyndunarafl listamannsins og tilraunahneigð í efnistökum.

Celia Harrison forstöðumaður Skaftfells segir að samstarfið við Listasafn Íslands hafi verið mikill heiður. „Við erum afar stolt af því að kynna verk eftir Kjarval, einn mikilvægasta listamann Íslands, hér fyrir austan, í umhverfinu sem var innblástur að svo mörgum þeirra. Við hlökkum til að opna dyrnar fyrir almenningi og leyfa fólki að njóta verkanna“.

Sýningin er jafnframt partur af stærra verkefni um Kjarval sem þrjár menningarstofnanir á Austurlandi standa að en auk Skaftfells eru það Minjasafn Austurlands og Sláturhúsið menningarmiðstöð. Verkefnið hófst með opnun sýningar Minjasafns Austurlands um Kjarval í Sláturhúsinu síðastliðið haust en þar er fjallað um líf listamannsins og tengsl hans við Austurland. Þar skipa persónulegir hlutir listamannsins sem varðveittir eru á Minjasafninu stóran sess og leitast er við að varpa ljósi á persónuna Kjarval og tengja saman verk hans og umhverfið sem þau eru sprottin úr. Hanna Christel Sigurkarlsdóttir er hönnuður sýningarinnar sem stendur enn yfir.

Síðastliðið haust var svo ákveðnum árgöngum allra grunnskóla á Austurlandi boðið að koma í Sláturhúsið til að skoða sýningu Minjasafnsins og sjá fjölskylduleikritið Kjarval í uppfærslu Borgarleikhússins. Fræðsluverkefnin halda áfram næsta haust en þá mun Skaftfell bjóða grunnskólum á Austur- og Norðausturlandi að koma með nemendur í heimsókn til að skoða sýninguna og taka þátt í fræðsluverkefni í tengslum við BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi.

Sýningin Kjarval á Austurlandi verður sem fyrr segir opnuð í Skaftfelli 17. júní kl. 16:00 og stendur yfir til 4. október.

Kjarval á Austurlandi
Getum við bætt efni þessarar síðu?