Fara í efni

Tímamóta samstarfsverkefni þriggja stofnanna

13.03.2024 Fréttir

Þessa dagana vinna Minjasafn Austurlands, Sláturhúsið og Skaftfell saman að sýningum og fræðsluverkefnum um Jóhannes Sveinsson Kjarval. Verkefnin eru hvert öðru áhugaverðara og hafa fengið styrki til þess að þau megi verða að veruleika.

Minjasafnið hlaut annars vegar tveggja milljón króna styrk úr safnasjóði og hins vegar hálfrar milljón króna styrk frá Múlaþingi. Saman hlutu Sláturhúsið og Minjasafnið eina og hálfa milljón úr Uppbyggingarsjóði og þrjúhundruð þúsund frá Landsvirkjun.

Þegar Hanna Christel Sigurkarlsdóttir verkefnastjóri og sýningarstjóri verkefnisins er spurð út í það í hverju mesta vinnan felst þegar kemur að svona stóru vekefni segir hún að til að byrja með sé það fjármögnunin ,,þar sem svona verkefni kostar eðli sínu samkvæmt mikið. Við erum búin að senda ófáar umsóknir og sem betur fer hefur það gengið vel hingað til. Við erum samt bara hálfnuð þegar það kemur að fjármögnun. Svo er það rannsóknar- og hugmyndavinnan og út frá þeirri vinnu ákveðum við hvað við viljum helst draga fram á sýningunum og framsetningin skiptir líka miklu máli til að gera sýninguna spennandi, fallega og áhugaverða. Að lokum er það úrvinnsla , uppsetning og kynning. Allt þetta ferli er mjög skemmtilegt og skapandi.“

Þríþætt samstarf

Þetta er í fyrsta skipti sem þessar þrjár stofnanir vinna allar saman og mun hver og ein nýta sína styrkleika og sérþekkingu þegar kemur að viðfangsefninu. En Hanna Christel segir samstarfið hafa kviknað í gegnum aðrar tengingar stofnananna.

,,Einn helsti snertiflötur þessara þriggja stofnana er í gegnum BRAS, menningarhátíð barna á Austurlandi. Í stýrihópi BRAS situr einn fulltrúi frá þessum þremur stofnunum ásamt fleirum og þar koma oft upp hugmyndir um samstarf og samnýtingu verkefna sem er náttúrulega tilvalið á jafn stóru og dreifðu svæði og Austurland er.

Ég vann lengi vel sem fræðslufulltrúi Skaftfells og svo forstöðukona og var svo eitt ár að leysa af sérfræðing í fræðslu og miðlun hjá Minjasafni Austurlands áður en ég fór að vinna sjálfstætt. Það má því segja að hugmyndin að verkefninu hafi komið til þegar að ég komst að því hvað Minjasafnið hefur að geyma marga spennandi muni úr fórum Kjarvals og þá sérstaklega báturinn sem hann nefndi Gullmávinn. Sagan um ferðalag Kjarvals á Gullmávinum niður Selfljót og alla leið að Bakkagerði hefur yfir sig þjóðsagnakenndan blæ. Hún fangar á ljóðrænan hátt bæði tengsl hans við Austurland og við náttúruna og ekki síður persónuna Kjarval.“

Samstarf verkefnisins er þríþætt:

Í fyrsta lagi mun Minjasafnið í samstarfi við Sláturhúsið setja upp sýningu um líf Kjarvals og veru hans fyrir austan. Þar verður reynt að varpa ljósi á karakterinn og ekki síst tengja saman verk hans og umhverfið sem að þau eru unnin í. Sýningin verður í Ormsstofu sem er á 1. hæð Sláturhússins, þar verður bátnum hans meðal annars komið fyrir. Sýningin mun opna haustið 2024.

Í öðru lagi mun Sláturhúsið í samstarfi við Borgarleikhúsið setja upp leiksýninguna Kjarval, undanfagurt og áhugavert leikrit um listmálarann sem ætlað er börnum og fullorðnum. Verkið var frumsýnt í Borgarleikhúsinu og ætlunin er að sýna nokkrar sýningar af sömu uppfærslu haustið 2024.

Síðasti og þriðji hluti verkefnisins er svo myndlistarsýning í Skaftfelli sumarið 2025 þar sem að verk Kjarvals verða í öndvegi.

Verkefninu ætlað að höfða til sem flestra

Hönnu Christel finnst þýðing verkefnisins fyrir svæðið mikil og vonar að hún verði til þess að varpa enn frekar ljósi á Kjarval og hans tengingu við Austurland.

,,Kjarval er eitt af þessum stóru nöfnum sem flest okkar kannast við. Á vissan hátt mætti kalla verk hans og jafnvel persónuna sjálfa þjóðargersemi enda til ótal sögur af honum. Tenging Kjarvals við Austurland er þekkt en samt höfum við ekki haldið þessari tengingu almennilega á loft. Í það minnsta ekki síðan að Kjarvalsstofa á Borgarfirði var með veglega sýningu um hann . Okkur fannst tími til kominn að gera þessari tengingu betur skil og kynna Kjarval jafnframt fyrir yngri kynslóðum sem þekkja hann jafnvel lítið sem ekkert.

Við gerum okkur vonir um að verkefnið höfði til sem flestra íbúa á svæðinu og ferðamanna. Leiksýningin mun aðallega höfða til barna á breiðum aldri en bæði minjasýningin og sýningin á verkum Kjarvals er fyrir fólk á öllum aldri og þjóðernum. Minjasýningin mun standa í heilt ár og sýningin í Skaftfelli verður sumarsýning 2025. Samhliða sýningunum ætlum við að þróa fræðsluverkefni fyrir börn og bjóða grunnskólanemendum á Austurlandi upp á þátttöku og verður hluti af BRASinu.“

Það er augljóst að verkefnið mun eiga erindi til flestra og eru öll hvött til þess að fylgjast með fréttum af því og njóta þess svo að sækja viðburði og sýningar tengdar því.

Mynd: Gunnar Freyr
Mynd: Gunnar Freyr
Getum við bætt efni þessarar síðu?