Fara í efni

Kumlateigur á Seyðisfirði

13.10.2021 Fréttir Seyðisfjörður

Nú hafa fundist fjögur kuml á sama svæði við fornleifauppgröftinn í landi Fjarðar á Seyðisfirði þannig að þarna er kumlateigur. Uppgröftur næstu daga mun skera úr um hvort fleiri kuml séu á kumlateignum. Mannvistarleifar sem fundist hafa í uppgreftrinum eru miklu umfangsmeiri og fjölbreyttari en búast mátti við út frá forkönnunum í fyrra.

Fyrstu austfirsku bátskumlin

Fyrir þremur vikum fundust bein manns og hests á rannsóknasvæðinu og hjá þeim gryfja sem síðan reyndist vera bátskuml. Í kumlinu voru tennur úr manni og bein hests, spjót, bátasaumur og fleiri járngripir sem bíða greiningar. Þá hafa verið grafnar upp perlur og næla, líklega úr silfri, sem hefur verið send á Þjóðminjasafnið til nánari greiningar. Þarna fundust einnig ýmsir minni gripir og taflmaður úr hnefatafli sem var fornt norrænt spil. Taflmenn hafa aðeins fundist í örfáum kumlum hér á landi og virðast þau vera kuml karlmanna. Algengt er að spjót finnist í kumlum karlmanna en þó hafa aðeins tvö slík fundist áður á Austurlandi.

Þarna hefur verið búið um hinn látna í bát eins og stundum var gert og reiðskjóti grafinn með honum. Einnig fékk hann töluvert af gripum með sér í gröfina og bendir þetta til þess að þarna hafi verið bæði háborinn og auðugur maður.

Af um 400 kumlum sem grafin hafa verið upp hérlendis eru aðeins ellefu bátskuml en þau virðast hafa verið mun algengari í Noregi en hér. Því merkilegra er að tvö af kumlunum þremur í Firði skuli vera bátskuml. Jafnframt eru þetta fyrstu bátskumlin sem finnast á Austfjörðum að undanskildu barnskumli með litlum báti sem fannst að Straumi í Hróarstungu.

Merkilegt er einnig að í öllum kumlunum þremur eru hestar og einnig hundur í einu þeirra. Í öðru bátskumlinu hafa raunar enn aðeins fundist bein af hesti og hundi en búast má við því að þar finnist einnig mannabein. Þessu svæði hefur þó því miður verið rótað upp í kringum 1960 þegar rafmagnsstaur var rekinn þar niður.

 

Fyrstu íbúar Seyðisfjarðar

Grafir heiðinna manna segja okkur margt um efnahag og uppruna fólksins sem settist hér að. Þetta gætu verið bein frá landnámsmönnum sem komu til Seyðisfjarðar fyrir um 1100 árum. Beinin þarfnast þó frekari rannsóknar áður en hægt verður að segja nánari deili á einstaklingunum sem þarna voru lagðir til hinstu hvílu. Freistandi er auðvitað að tengja þennan merka fund við frásögn Landnámu af Bjólfi sem settist að á Seyðisfirði og bjó á bænum Firði. Vitað er út frá forkönnunum að samfelld byggð hefur verið í Firði allt frá 10. öld til þeirrar tuttugustu og gamli bæjarhóllinn er enn vel sýnilegur í landslaginu. Teigurinn með kumlunum þremur er einungis um 100 metra frá bæjarstæðinu forna og þarna hlýtur því óhjákvæmilega að vera eitthvert samhengi.

Erfitt er þó að meta sannleiksgildi Landnámufrásagna. Þar virðist oft greint rétt frá staðsetningu byggðra bóla en á hinn bóginn er mörgu sleppt og hafa stórbýli fundist hér á landi sem engar heimildir greina frá. Landnáma nefnir heldur ekki alla sem byggðu Ísland á landnámstímanum og er vert að að hafa í huga að hverjum höfðingja hefur fylgt stór hópur fólks af háum og lágum stigum: karlar, konur og börn.

 

Stórar skriður á 12. öld og um 1400 

Fundurinn á kumlum og minjum frá landnámi á þessu svæði kom á óvart því forkannanir í fyrra bentu til þess að minjar þarna gætu ekki verið mikið eldri en frá 17. öld. Þá fannst meðal annars skriða sem talin var frá forsögulegum tíma og var hún töluvert neðar en þær mannvistarleifar sem fundust. Við rannsóknirnar í sumar uppgötvaðist hins vegar að skriða frá því um 1400 hefur fallið yfir enn stærra svæði en áður var talið og eftir athuganir skriðusérfræðings í síðastliðinni viku varð ljóst að skriðan sem áður var túlkuð sem forsöguleg hefur ekki fallið fyrr en árið 1151. Sú skriða breiðir úr sér yfir sum kumlanna en þau eru talin vera frá 10. öld.

 

Áfram er grafið

Uppgröfturinn hófst í júní en ráðist var í hann vegna fyrirhugaðra framkvæmda við snjóflóðavarnargarða við norðanverða byggðina á Seyðisfirði. Þótt þeir séu til varnar snjóflóðum undirstrika skriðurnar, sem nú hafa komið í ljós, þörfina á öðrum skriðuvörnum fyrir byggðina.

Upphaflega stóð til að uppgreftrinum lyki í lok ágúst en vegna þeirra minja sem þá þegar höfðu fundist var haldið áfram. Sífellt hefur fundist meira og því hefur uppgröfturinn dregist á langinn. Eftir að fyrsta kumlið fannst var tekinn könnunarskurður milli uppgraftarsvæðisins og bæjarhólsins í Firði. Þar reyndust vera enn meiri mannvistarleifar nær Firði en áður var vitað og þó höfðu forkannanir sumarið 2020 þegar sýnt að bæjarhóllinn er miklu stærri en áður var talið. Í bæjarhólnum eru minjar allt aftur til landsnámstímans og verður hann grafinn upp næsta sumar samkvæmt áætlun.

Haustregnið hefur torveldað vinnu fornleifafræðinga á vettvangi að undanförnu en framkvæmdir við varnargarðana hefjast þó bráðlega. Ljúka þarf uppgrefti á kumlum og minjum í nánasta umhverfi þeirra í haust enda er þessi áfangi uppgraftarins nú á lokametrunum.

Fornleifarannsóknin fer fram á vegum FSÍ og Múlaþings og annast fyrirtækið Antikva ehf. hana undir stjórn Ragnheiðar Traustadóttur fornleifafræðings. Meðal annars hefur verið haft samstarf við jarðfræðinga og hóp norskra sérfræðinga sem gert hafa módel af rannsóknasvæðinu og einstökum gripum. Á síðustu dögum hefur auk þess borist liðsauki frá Minjastofnun Íslands.

Bein manns


 Hauskúpa

Kumlateigur á Seyðisfirði
Getum við bætt efni þessarar síðu?