Fara í efni

Kvennaverkfall þriðjudaginn 24. október

23.10.2023 Fréttir

Kvennaverkfall þriðjudaginn 24. október

Á fjórða tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og launafólks hafa boðað til kvennaverkfalls á morgun, þriðjudaginn 24. október, þar sem konur og kvár eru hvött til að leggja niður launuð og ólaunuð störf. Viðbúið er að ákveðin þjónusta á vegum Múlaþings verði skert eða þyngri í vöfum þennan dag.

Múlaþing tekur undir og styður þau meginmarkmið kvennaverkfalls að hefðbundin kvennastörf, jafnt launuð sem ólaunuð, skuli metin að verðleikum og að kynbundnu ofbeldi verði útrýmt. Jafnframt hvetur Múlaþing karlmenn til að sýna samstöðu í verki og standa vaktina þennan dag hvort heldur sem er á vinnustöðum og eða á heimilum.

Stjórnendur hjá sveitarfélaginu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að vinnuframlag kvenna og kvára sé sýnilegt og að sem flest þeirra geti tekið þátt í viðburðum baráttudagsins 24. október.

Hluti af starfsemi sveitarfélaga er með þeim hætti að ekki er mögulegt að leggja hana alfarið niður og kappkostað verður að tryggja þjónustu á öllum sviðum svo velferð, öryggi og heilsu fólks verði á engan hátt stofnað í hættu.

Þennan dag verður haustfrí í flestum grunnskólum sveitarfélagsins en þeir verða allir lokaðir ásamt leik- og tónlistarskólunum. Skrifstofan á Seyðisfirði verður lokuð þennan dag sem og Bókasafn Héraðsbúa og Bókasafn Djúpavogs.

Vakin er athygli á að Múlaþing er með jafnlaunavottun og vinnur stöðugt að því að útrýma óskilgreindum launamun en einnig hefur sveitarfélagið þrisvar sinnum hlotið Jafnvægisvogina, viðurkenningu Félags kvenna í atvinnulífinu.

Ekki verður dregið af launum kvenna og kvára sem leggja niður störf þennan dag í samráði við stjórnendur.

Kvennaverkfall þriðjudaginn 24. október
Getum við bætt efni þessarar síðu?