Fara í efni

Landsmenn hvattir til að styrkja björgunarsveitina á Seyðisfirði með kaupum á rafrænum flugeldum

29.12.2020 Fréttir

Rafrænir flugeldar í þrívíddarviðburðinum Áramótasprengjunni á RÚV á gamlárskvöld

Í kjölfar aurskriðanna á Seyðisfirði hefur verið unnið hörðum höndum að því að færa samfélagið og innviði þess þar aftur til fyrra horfs. Jafnframt hefur verið ákveðið að í stað hefðbundinna flugeldasprenginga um áramót verði heimafólki hlíft við slíkum hljóðum, en að þess í stað verði kertum fleytt við Lónið.

Mikið hefur mætt á Seyðfirðingum og ekki síst liðsmönnum björgunarsveitarinnar að undanförnu. Sem kunnugt er hefur sala á flugeldum verið ein helsta fjáröflunarleið björgunarsveitanna í landinu og við þær aðstæður sem nú ríkja hefur verið efnt til sölu á rafrænum flugeldum á slóðinni aramot.is sem hýsir meðal annars síðasta dagskrárlið RÚV á árinu, þvívíddarviðburðinn ÁRAMÓTASPRENGJUNA 2020 þar sem margt af fremsta tónlistarfólki landsins kemur fram í nýjum ham og það í gagnvirku samspili við áhorfendur. Má þar nefna Sigur Rós, Kaleo, Stuðmenn, Bríeti, Friðrik Dór, Auði og fleira tónlistarfólk.

"Það er stórkostlegt að fá þennan stuðning, þar sem þetta verður okkar eina flugeldasala í ár. Við vonum að allir fari á aramot.is og taki þátt í þesssum nýstárlegu áramótum sem verður sjónvarpað á RÚV", sagði Helgi Haraldsson, formaður björgunarsveitarinnar Ísólfs á Seyðisfirði.

Rafrænu flugeldarnir eru fáanlegir í nokkrum verðflokkum frá kr. 1.000 til kr. 5.000 og renna allar tekjur af sölu þessara grænu og umhverfisvænu flugelda beint inn á reikning björgunarsveitarinnar Ísólfs.

Umrædd útsending á RÚV hefst kl. 23:35 og lýkur kl. 24:05.

Um Áramótasprengjuna:

Áramótasprengjan er áramótafagnaðar í nýrri vídd, fyrsti sinnar tegundar í heiminum og fyrsta gagnvirka sjónvarpsútsendingin. Íslensku þjóðinni býðst að sameinast yfir áramótin og taka raunverulegan þátt í beinni útsendingu sem sín eigin sýndarveru þeim að kostnaðarlausu. Einfalt er að skrá sig og allir geta tekið þátt á aramot.is.

Verkefnið var sett af stað sökum samgöngubanna og bágrar samkvæmisstöðu almennt í heiminum sökum Covid-19. Öllum heiminum er boðið að njóta með íslensku þjóðinni yfir þessi sérstöku áramót.

 

Myndefni: http://bit.ly/aramot-is

Ljósmynd Ómar Bogason
Ljósmynd Ómar Bogason
Getum við bætt efni þessarar síðu?