Fara í efni

Lífið finnur sér leið

24.01.2024 Fréttir Egilsstaðir

Í Sláturhúsinu hófst árið á því að sýningin Plastúra Bindi I - Verufræðilegt veggteppi; endurfæðing nýs vistkerfis var sett upp.

Sé texinn um sýninguna á heimasíðu Sláturhússins lesinn kemur í ljós að um mjög áhugaverða sýningu er að ræða sem vekur ef til vill fleiri spurningar en hún svarar.

Þegar Ragnhildur Ásvaldsdóttir var spurð út í sýninguna benti hún á að við skrif textans hefði verið notuð nýasta tækni, en hann var unninn með aðstoð gervigreindar. Það er því augljóst að sýningin ögrar því sem við eigum að venjast bæði innan veggja safnsins og utan.

Plastúra er framtíðarveröld þar sem komið er fram nýtt vistkerfi byggt á leifum heims sem drukknað í plasti.

Listakonan Ragnheiður Sigurðar Bjarnarson hefur lengi unnið með plast í list sinni og þykir efnið merkilegt.

,,Mér finnst plast mjög merkilegt efni því það er mjög harðgert og hjálpar okkur að geyma hluti lengur sem og er það hentugt til framleiðslu. Svo er auðvitað neikvæða hliðin af því sem við þekkjum auðvitað öll með miklum áróðri, sem er mikilvægur, en við sem neytendur höfum ekkert val um okkar plastneyslu.“

Hugmyndin að sýningunni kviknaði þegar Ragnheiður var að hugsa um það hvernig ekkert virðist virka þegar kemur að loftlagsvá og hlýnun jarðar og hvorki pólitíkin né stórfyrirtækin sýni vilja til að breyta hegðun sinni. Þá þykir henni eins og mannkynið þurfi sífellt að framleiða meira og meira, þrátt fyrir miklar framfarir og þróun í tækni.

Hún veltir því upp hvað gerist ef hið versta raungerist, það er að lífríkið raskast og mannkynið útrýmir sjálfu sér, allavega í þeirri mynd sem við þekkjum í dag.

Hún ímyndar sér að þá verði til nýtt líf ,,Lífið finnur sér leiðir, eins og það hefur alltaf gert og plastið er orðin stór hluti af því lífríki. Hitinn kannski orðinn svo mikill að það myndar samruna við lífrænar öreindir eða jafnvel lifnar við sjálft. Hverir verða að lífrænum plastholum sem búbbla. Náttúrulitirnir verða æpandi pastel litir og umhverfið allt mótast upp á nýtt.“

Hún segir verkið þó aðeins vera byrjunina eða fyrsta bindi í þróunarsögu nýs lífríkis. Möguleiki sé á fleiri bindum í framtíðinni.

Þegar hún er spurð út í það hvað það sé sem hún vill að fólk taki með sér eftir sýninguna segist hún vera þannig listakona að hún vilji helst að fólk komi ekki með hugmynd um hvað það er fara að sjá fyrirfram.

,,Upplifunin ein sem verkfæri við að greina það sem er fyrir framan viðkomandi. Tilfinningin og krafturinn sem sýningin býður upp á er það sem ég vil að fólk taki með sér. En ef sýningin og þá aðallega hugmyndafræðin opnar á einhverja nýja hugsun eða nýja hegðun þá væri það ekkert verra.“

Þá finnst henni áhugavert að heyra hvað öðrum dettur í hug þegar hugsað er út í þennan framtíðarheim en hugmyndirnar geta verið óteljandi.

Hennar helsta von með sýningunni er að hún veiti frið og ró frá daglegu amstri og kannski kveiki hún heimspekilegar hugmyndir um framhald lífs á jörðinni þegar róin færist yfir.

Sýningin stendur til 23. mars og eru íbúar sem og gestir sveitarfélagsins hvattir til að nýta sér tækifærið og skella sér á þessa áhugaverðu og litríku sýningu.

Plastúra Bindi I - Verufræðilegt veggteppi; endurfæðing nýs vistkerfis
Plastúra Bindi I - Verufræðilegt veggteppi; endurfæðing nýs vistkerfis
Getum við bætt efni þessarar síðu?