Þann 8. maí klukkan 17:00 verður sýningin Allir ólíkir, allir saman opnuð í Bókasafni Hérðasbúa. Listrænn stjórnandi sýningarinnar er Zuzana Cremanova og hefur hún haldið utan um alla listræna framkvæmd, þemu og listsköpun. Zuzana er leiðbeinandi í Stólpa og hefur fengið til liðs við sig 15 listamenn sem allir eru úr Stólpa. Vinna við hugmyndir og undirbúningur hefur staðið síðan í desember en virk sköpunarvinna hefur veriuð í gangi síðustu tvo mánuðina.
Þessi skemmtilega sýning varð til út frá þörf einstaklinga til að tjá sig, óháð þeim takmörkunum sem lífið getur fært með sér. Höfundar verkanna, sem er fólk með fatlanir, leggja hluta af sjálfum sér í andlitsmyndirnar sínar. Á sýningunni má þannig finna tilfinningar, sögur og kyrr augnablik sem oft segja meira en mörg orð. Andlitsmyndirnar eru því ekki aðeins um útlit, þær eru sýn listamannanna á sjálfa sig, heiminn og þá djúpu þörf okkar allra til að vera séð og skilin.
Sýningin er liður í listahátíðinni List án landamæra og eru öll hvött til að gera sér ferð í Bókasafn Hérðasbúa fyrir júnílok til að bera hana augum. Þá er vel þegið ef gestir tjá tilfinningar sínar eða hugsanir út frá sýningunni í gestabók sem er á staðnum.