Fara í efni

Listahátíðin Vor / Wiosna byrjar á morgun

20.04.2022 Fréttir

Vor / Wiosna verður haldin á fjölmörgum stöðum á Egilsstöðum og Seyðisfirði. Það verða til dæmis tónleikar og hreyfimyndir á Seyðisfirði, söngsmiðja og raftónlist á Egilsstöðum, þá verður fjölskyldustuvinnustofa haldin á báðum stöðum. Þetta er þó ekki tæmandi listi og við hvetjum fólk til að fylgjast með dagskránni á vef sláturhússins sem og facebook síðu MMF.

Kennarar námskeiðanna ásamt öðru listafólki koma allir frá Póllandi og eru vel þekkt innan sinna listgreina þar í landi og víðar.

Hátíðin er haldin þriðja árið í röð en með útsjónarsemi, lagni og mikilli vinnu tókst þó að halda hátíðina bæði 2020 og 2021 þrátt fyrir covid faraldur.

Þema hátíðarinnar er ,,Hljóðlist“ og verður boðið upp á tónleika og tónlistarvinnustofur. Hljóðlistaverk eftir pólska listamanninn Stefan Kornacki mun vera til sýnis á hátíðinni. Það verða einnig sýndar hreyfimyndir eftir pólskar og úkraínskar listakonur og úkraínska listakonan Olia Fedorova samdi ljóð sérstaklega fyrir hátíðina sem birtast mun á vegg Herðubreiðar á Seyðisfirði.

Ragnhildur Ásvaldsdóttir forstöðumaður MMF segir tildrög hátíðarinnar vera þau að af fenginni reynslu væri erlent listafólk sem að býr og starfar á Íslandi oft utangátta í hinni hefðbundnu íslensku listasenu. Þar að auki býr og starfar hér á Austurlandi stór hópur Pólverja sem ekki hefur verið að nýta sér þá lista- og menningarviðburði sem hér hafa verið. Markmiðið með hátíðinni var því að tengja saman þessa tvo hópa á fyrstu hátíðinni og bjóða pólsku listafólki sem að býr og starfar á Íslandi að taka þátt.

Ef fjölmenningarsamfélag á að blómstra, þá þurfa raddir innflytjenda að heyrast innan menningar- og listageirans.

Strax fyrsta árið var pólska listakonan og sýningastjórinn Wiola Ujazdowska fengin til að vera verkefnisstjóri hátíðarinnar og hún er það einnig í ár.

Verkefnið hefur þróast talsvert og nú í ár er verið að prófa vinnustofur sem að ná yfir nokkra daga þannig að þátttakendur fá vonandi meira út úr hátíðinni en bara að mæta á eina sýningu. Vinnustofurnar eru líka tilvalinn vettvangur fyrir samtal hinna ýmsu menningarhópa sín á milli.

Hátíðin er styrkt af Uppbyggingasjóði Austurlands, Alcoa-Fjarðarál, Múlaþingi og Landsvirkjun

Listahátíðin Vor / Wiosna byrjar á morgun
Getum við bætt efni þessarar síðu?