Fara í efni

Ljós fyrir Seyðisfjörð

29.12.2020 Fréttir

Í kjölfar náttúruhamfaranna á Seyðisfirði hefur Björgunarsveitin Ísólfur tilkynnt að ekki verði af sölu flugelda að þessu sinni vegna þess að húsnæði Björgunarsveitarinnar varð fyrir hamfaraflóðinu.

Einnig hefur verið ákveðið að aflýsa árlegri flugeldasýningu Björgunarsveitarinnar og sveitarfélagsins af tillitssemi við íbúa sem hafa kallað eftir því að flugeldum verði ekki skotið upp að þessu sinni. Margir þjást vegna áfallsins sem þeir urðu fyrir þegar hamfaraskriðan fór niður og geta ekki hugsað sér að upplifa drunur úr fjöllunum sem sprengingar frá flugeldum valda. Af tilliti til þeirra verður ekki flugeldasýning. Í staðinn hefur verið ákveðið að safnast saman við Lónið í hjarta bæjarins til að tendra ljós fyrir Seyðisfjörð.

Bæjarbúar eru hvattir til að mæta við Lónið klukkan 21 á gamlárskvöld og hafa með sér ljós, hvort sem það er kerti eða kyndill. Hægt verður að kaupa friðarkerti til stuðnings Björgunarsveitarinnar Ísólfi í Herðubreið dagana 30. og 31. desember.

Við Lónið hefst samverustundin með einnar mínútu þögn á slaginu 21:10. Að þögn lokinni verður sungið saman til fjarðarins lagið „Ég er komin heim“.

Ef veður leyfir má skilja kertin logandi eftir hringinn í kringum Lónið.

Janet og undirbúningshópurinn sendir bæjarbúum ósk um gleðilegt ár og bjarta framtíð.

Ljós fyrir Seyðisfjörð
Getum við bætt efni þessarar síðu?