Fara í efni

Lundinn er lentur í Hafnarhólma

13.04.2023 Fréttir Borgarfjörður

Vorboðinn væni er lentur á Borgarfirði. 

Í kringum eitt þúsund lundar hafa snúið aftur í holurnar sínar í Hafnarhólma undanfarin kvöld en búist er við öðru eins næstu daga. 

"Þetta er alveg samkvæmt áætlun" segir Jón Þórðarson, fulltrúi sveitarstjóra á Borgarfirði. "Hann kemur 7.apríl klukkan 19:30 og fer aftur fyrsta þriðjudag eftir verslunarmannahelgi" bætir Jón við kíminn. 

Um 10.000 pör lunda hreiðra um sig í Hafnarhólma ár hvert og dvelja þar við frá miðjum apríl til mið ágúst. Hafnarhólminn státar sig af því að vera eina svæðið á Íslandi (og eflaust víðar) þar sem áhugasamir geta komist mjög nálægt fuglinum en fuglinn er óvenju gæfur og virðist ekki kippa sér mikið upp við myndatökur og aðdáun áhorfenda. 

Lundinn verpir einungis einu eggi á ári og ala pörin unga sinn upp í holunni yfir sumartímann og þjálfa í 8 mánuði á opnu hafi yfir veturinn. Lundinn er langlífur og er elsti lundinn í Hafnarhólma 43 ára samkvæmt fuglavernd. 

Lundinn er lentur í Hafnarhólma
Getum við bætt efni þessarar síðu?