Skólaárinu 2024–2025 er lokið í LungA-skólanum en aldrei hafa fleiri sótt skólann. LungA hefur að venju boðið upp á LIST- og LAND-brautir og nú, þegar skólinn kveður árganginn, ríkir þakklæti og gleði yfir þeirri dýrmætu lífsreynslu sem þátttakendur hafa deilt á Seyðisfirði.
„Það sem gerir LungA að skóla í orðsins fyllstu merkingu er ekki kennslan ein og sér, heldur samfélagið sem myndast þegar fólk lifir, lærir og skapar saman,“ segir dr. Mark Rohtmaa-Jackson, skólastjóri LungA. „Í ár höfum við séð einstakan hóp þátttakenda vaxa og styrkjast í gegnum listina, náttúruna og tengslin sem hér myndast.“
Námslínurnar í skólanum eru nú þrjár, LIST og LAND í staðnámi og Útvarpsskóli LungA í fjarnámi. Nemendur lögðu meðal annars leið sína í Loðmundarfjörð og Skálanes, þar sem þau lærðu í nánu sambandi við náttúru, sögur og vistkerfi. Aðrir komu að listsýningum í Herðubreið, HEIMA og Netagerðinni, héldu tónleika og aðra viðburði, tóku þátt í ýmsu félagsstarfi í bænum og sendu út útvarpsþætti í gegn um samfélagsútvarpið Seyðisfjörður Community Radio.
Skólinn stendur einnig á tímamótum í alþjóðlegu samstarfi. Um áramótin lýkur Erasmus+ samstarfsverkefni þar sem skólinn tekur þátt í gagnkvæmum heimsóknum með Háskólanum í Suður-Noregi (USN) og Brandbjerg lýðháskólanum í Danmörku. Þessar heimsóknir og samvinnan hefur dýpkað tengslin, aukið þekkingu og aukið sýnileika LungA á alþjóðavettvangi.
Á meðan nemendur kveðja skólann í vor, eru starfsmenn þegar farnir að undirbúa næsta viðburð: Sluice-hátíðina, sem fer fram í lok maí í samstarfi við breska tímaritið Sluice. Hátíðin sameinar skapandi hugmyndir, samfélagslegan metnað og list, allt í anda LungA.
LungA lítur nú fram á veginn, með markmið um nýtt húsnæði, tvær LAND- og tvær LIST-brautir á ári og áframhaldandi uppbyggingu á fullorðinsfræðslu og fjarnámi. Umsóknir fyrir næsta skólaár eru þegar farnar að berast og áhuginn er mikill.
Þátttakendum skólaársins 2024–2025 er þakkað fyrir samveruna og sérstaklega öllum þeim einstaklingum, hópum og fyrirtækjum sem koma að LungA-skólanum. LungA heldur áfram að vaxa með djúpar rætur í firðinum og skýra sýn til framtíðar.