Fara í efni

Málþing um sögu Seyðisfjarðar

18.09.2023 Fréttir Seyðisfjörður

Sögufélag Austurlands stendur fyrir málþingi um ritun sögu Seyðisfjarðar laugardaginn 30. september næstkomandi. Þingið verður haldið í Herðubreið á Seyðisfirði og stendur frá klukkan 10:00 til klukkan 17:00 með hádegisverðarhléi.

Mikil umræða hefur farið fram meðal austfirskra fræðimanna og á vegum Sögufélags Austurlands um nauðsyn þess að skrá heildstætt byggðarsögu Seyðisfjarðar. Um skeið var Seyðisfjörður ókrýndur höfuðstaður Austurlands meðan önnur þorp á Austurlandi voru að þroskast. Þar var öflugt og fjölbreytt atvinnulíf og mikil menningar- og listastarfsemi sem lifir ennþá góðu lífi.

Allmikið hefur verið ritað um ýmsa þætti úr sögu byggðarinnar en sárlega skortir heildstæða sögu staðarins sem sómi væri að. Með málþinginu er stefnt að því að koma verkefninu í ákveðinn farveg og undirbúa það þannig að fast form verði myndað og að því verði lokið farsællega í fyllingu tímans.

Fyrirlesarar á þinginu verða eftirtalin:

  1. Hrefna Róbertsdóttir, þjóðskjalavörður
  2. Jón Hjaltason, sagnfræðingur
  3. Ragnheiður Traustadóttir, fornleifafræðingur
  4. Pétur H. Ármannsson, arkitekt
  5. Helgi Hallgrímsson, náttúrufræðingur
  6. Stefán Bogi Sveinsson, héraðsskjalavörður

Að loknum umræðum um erindin verður gestum skipt í hópa, sem hver um sig fjallar um sinn þátt verkefnisins. Að loknu hópstarfi verður afgreidd tillaga um framhald málsins.

Fundarstjóri málþingsins verður Arnbjörg Sveinsdóttir fyrrverandi alþingismaður og forseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði.
Þingið er opið öllum en þátttöku þarf að tilkynna í síðasta lagi mánudaginn 25. september.

Málþing um sögu Seyðisfjarðar
Getum við bætt efni þessarar síðu?