Fara í efni

Múlaþing býður hóp flóttafólks velkomið

17.10.2022 Fréttir

Múlaþing tók á móti flóttafólki frá Úkraínu í síðustu viku. Hópurinn samanstendur af 16 einstaklingum á aldrinum 22 – 67 ára og eru einstaklingarnir innan hans eins ólíkir og þeir eru margir. Dvöl þeirra á Íslandi hefur verið mislöng en sá sem hefur verið hér lengst kom í apríl og sá sem hefur verið hér skemmstan tíma kom til landsins fyrir rúmri viku síðan. Hópurinn hefur aðstöðu á Eiðum, þar sem mikil uppbygging hefur verið undanfarið.

Aðspurð segir Fríða Margrét Sigvaldadóttir sem er verkefnastjóri í málefnum flóttafólks að hópinn einkenni þakklæti og áhugi á landi og þjóð. Þá vilja þau gjarnan komast á vinnumarkaðinn og verða þeim fundinn úrræði í samvinnu við Vinnunmálastofnun. Þá mun Vinnumálastofnun, í samstarfi við Austurbrú, einnig koma að íslenskukennslu fyrir hópinn sem og fræðslu um Ísland, menninguna, og nærumhverfi á námskeiði sem kallast Landneminn.

Þessa dagana standa yfir einstaklingsviðtöl þar sem staðan er tekin og út frá þeim er greint hvaða stuðning hver og einn þarf.

Þess má geta að öllum hópnum var boðið á 70‘s rokkveislu í Valaskjálf síðastliðna helgi en tónleikarnir voru haldnir til styrktar geðheilbrigði á Austurlandi. Fengin var rúta að láni og einn hljómsveitarmeðlima tók að sér að keyra hópinn fram og til baka. Þetta vakti mikla lukku innan hópsins og skemmtu þau sér vel og voru þakklát fyrir boðið.

Á næstu misserum mun sveitarfélagið taka á móti fleira flóttafólki og eru íbúar sveitarfélagsins hvött til að bjóða þau velkomin.

Múlaþing býður hóp flóttafólks velkomið
Getum við bætt efni þessarar síðu?