Fara í efni

Múlaþing hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar annað árið í röð

Björn Ingimarsson, sveitarstjóri.
Björn Ingimarsson, sveitarstjóri.

Múlaþing hlaut á dögunum viðurkenningu Jafnvægisvogar Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) en um er að ræða hreyfiaflsverkefni með það markmið að jafna stöðu kynja í efstu stjórnendalögum fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana og er hlutfallið 40/60 haft til hliðsjónar við matið. Eliza Reid kynnti viðurkenningahafa á ráðstefnu sem bar heitið Jafnrétti er ákvörðun í beinni útsendingu á RÚV. Þess má geta að Múlaþing hlaut einnig viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar fyrir árið 2020.

Alls voru það 38 fyrirtæki, 7 sveitarfélög og 8 opinberir aðilar sem hlutu viðurkenninguna.

 

Þátttakendur verkefnisins telja nú 152. En stór hluti þeirra þátttakenda sem skrifuðu undir viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar haustið 2020 hafa náð góðum árangri á þessu sviði og fjölgaði þeim fyrirtækjum og stofnunum, sem hafa náð markmiðunum, um 8 á milli ára. Auk þess vekja þátttakendur í Jafnvægisvoginni athygli á jafnréttismálum innan sinna fyrirtækja með ýmsum öðrum hætti.

Fjölbreyttur mannauður hefur jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækja sem og starfsánægju og frammistöðu í starfi, stuðlar að betri ákvarðanatöku og aukinni verðmætasköpun þar sem nýsköpun og vöxtur verður frekar í hópi fólks með ólíkar skoðanir og bakgrunn.

Múlaþing starfar eftir jafnréttisáætlun sveitarfélagsins og hefur einnig hlotið jafnlaunavottun. Sigrún Hólm Þórleifsdóttir verkefnastjóri mannauðs tók við viðurkenningunni fyrir hönd sveitarfélagsins en afhenti hana svo Birni Ingimarssyni sveitarstjóra. Hann segist vera þakklátur og stoltur af þessari mikilvægu viðurkenningu sem er gott skref í rétta átt að auknu jafnrétti hjá sveitarfélaginu.


Getum við bætt efni þessarar síðu?