Fara í efni

Múlaþing verður aðili að Barnvænum sveitarfélögum

15.03.2022 Fréttir

Föstudaginn 11. mars 2022 gerðu Björn Ingimarsson, sveitarstjóri, og Vigdís Diljá Óskarsdóttir, verkefnastýra íþrótta- og æskulýðsmála, góða ferð í höfuðstöðvar UNICEF á Íslandi þar sem Múlaþing bættist formlega í hóp þeirra sveitarfélaga sem taka þátt í verkefninu Barnvæn sveitarfélög UNICEF.

Meðal annars má þakka Ungmennaráði Múlaþings fyrir að þetta gæfuspor er tekið í sveitarfélaginu, en ráðið hefur barist fyrir því frá því á síðasta ári að Múlaþing stigi skrefið til fulls og vinni að því að verða Barnvænt sveitarfélag.

Barnvæn sveitarfélög er verkefni sem styður sveitarfélög við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla sína stjórnsýslu og starfsemi. Verkefnið byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities Initiative (CFCI), sem hefur verið innleitt í þúsundum sveitarfélaga út um allan heim frá árinu 1996. Verkefnið byggir jafnframt á efni frá umboðsmönnum barna í Noregi og Svíþjóð og UNICEF í Finnlandi. UNICEF á Íslandi hefur umsjón með verkefninu en verkefnið er stutt af mennta- og barnamálaráðuneyti.

Sveitarfélög sem taka þátt og innleiða Barnasáttmálann geta hlotið viðurkenningu sem Barnvæn sveitarfélög. Innleiðingarferlið tekur að minnsta kosti tvö ár og skiptist í 8 skref sem sveitarfélag stígur með það að markmiði að virða og uppfylla réttindi barna. Sveitarfélögin munu þannig innleiða Barnasáttmálann með markvissum hætti í alla sína stjórnsýslu og starfsemi með stuðningi frá UNICEF á Íslandi.

Múlaþing verður aðili að Barnvænum sveitarfélögum
Getum við bætt efni þessarar síðu?