Kæru íbúar Múlaþings,
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það sem nýliðið er. Árið 2025 var markvert fyrir margra hluta sakir. Ég tók við sem sveitarstjóri Múlaþings í febrúar og hafa síðustu mánuðir farið í að setja sig inn í mál og viða að mér nýrri þekkingu. Mig langar að þakka kærlega fyrir góðar móttökur og þolinmæði sem mér hefur verið sýnd á meðan ég var að ná tökum á starfinu – og það má taka fram að því lærdómsferli er ekki enn lokið!
Nú í byrjun árs erum við að kynna til sögunnar nýtt skipurit hjá Múlaþingi en nánar má lesa um það hér. Þegar hefur verið ráðið í stöðu eins nýs sviðsstjóra og tveir í viðbót bætast í hópinn fljótlega á þessu ári þegar þeir Óðinn Gunnar Óðinsson skrifstofustjóri og Guðlaugur Sæbjörnsson fjármálastjóri hyggjast láta af störfum fyrir aldurs sakir. Þeirra verður sárt saknað enda hafa þeir verið máttarstólpar í stjórnsýslu sveitarfélagsins um áratugaskeið. En við hlökkum líka til að taka á móti nýju fólki og halda áfram að byggja upp góða liðsheild í því teymi sem fer með stjórnartaumana í stjórnsýslu sveitarfélagsins.
Ríkur af mannauði
Frá því að ég tók við starfi sveitarstjóra hef ég tekið eftir því hvað við búum yfir ótrúlega miklum mannauði hjá sveitarfélaginu. Það er valin manneskja í hverju starfi, fólk sem er tilbúið að leggja mikið á sig til að þjónusta aðra íbúa sveitarfélagsins hvort sem það er í grunn- og leikskólunum, í búsetuúrræðum, í menningarstofnunum okkar, í starfi með eldri borgurum, í tónlistarskólunum, í félagsmiðstöðunum, í þjónustumiðstöðum, í íþróttahúsunum eða í sjálfri stjórnsýslunni. Mig langar að nýta þetta tækifæri til að færa öllu starfsfólki Múlaþings innilegar þakkir fyrir þeirra góðu störf. Ég setti mér það markmið þegar ég kom til starfa að heimsækja allar stofnanir Múlaþings á fyrstu mánuðum mínum í starfi en það er skemmst frá því að segja að það markmið náðist ekki því enn eru nokkrar stofnanir sem ég á eftir að sækja heim. En ég mun vonandi ná að loka hringum nú í byrjun nýs árs og svo mun ég hefja yfirreiðina að nýju. Mér þykir nefnilega mikilvægt að sveitarstjóri sé sýnilegur starfsfólki á vinnustöðum þess og geti fengið beint í æð fréttir af starfsemi sveitarfélagsins og séð hvað gengur vel og hvað má betur fara. Það sama á við um nálægð við íbúa og atvinnurekendur í sveitarfélaginu. Á síðasta ári var ég með opna viðtalstíma í öllum byggðakjörnum og hyggst gera það reglulega. Þá hef ég einnig reynt að heimsækja fyrirtæki á svæðinu og mun einnig halda þeirri yfirreið áfram á nýju ári.
Ár hagsmunagæslu
Það sem einkenndi starf sveitarstjóra á síðasta ári var barátta fyrir hagsmunum sveitarfélagsins gagnvart stjórnvöldum. Mikill tími og orka fór í að reyna að koma yfirvöldum í skilning um mikilvægi þess að staðið verði við þau loforð sem voru gefin sem forsenda fyrir sameiningu Múlaþings en það voru fyrst og síðast samgöngubætur milli byggðakjarna í hinu nýja sveitarfélagi. Því miður höfum við ekki enn uppskorið í þeim efnum en bindum enn vonir við að ný samgönguáætlun taki breytingum til hins betra í meðförum þingsins. Annað mál sem var áberandi á síðasta ári var að knýja fram breytingar á innviðargjaldi á skemmtiferðaskip og fá fram frestun á afnámi tollfrelsis fyrir minni leiðangursskip í hringsiglingum en komur þessara skipa í hafnir Múlaþings skipta sköpum fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Sem betur fer höfðum við þar erindi sem erfiði en gjaldið tók breytingum í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar og sömuleiðis var afnámi tollfrelsis á hringsiglingarnar frestað og vonum við að varanleg lausn fáist í þau mál á þessu ári. Framundan eru síðan stór og mikilvægt mál á vorþingi sem við vonumst til að verði Múlaþingi til heilla, þar má nefna frumvarp um lagareldi og við vonum einnig að nýtt frumvarp um skatta af orkumannvirkjum líti dagsins ljós.
Það er því ljóst að nóg verður um að vera á þessu nýja ári og framundan eru sveitarstjórnarkosningar í maí. Flokkar eru nú farnir að hefja vinnu við að raða fólki á lista og verður gaman að fylgjast með framvindunni þar. Sem ópólitískur sveitarstjóri hlakka ég til að fylgjast með á hliðarlínunni og vonast til að fá áfram að starfa fyrir sveitarfélagið að loknum kosningum en það verður auðvitað bara að koma í ljós!
Að lokum segi ég bara góða skemmtun í þorrablótsvertíðinni framundan! Sjáumst vonandi á nokkrum blótum.
Dagmar Ýr Stefánsdóttir
sveitarstjóri Múlaþings