Fara í efni

Nýir starfsmenn í Múlaþingi

19.10.2020 Fréttir

Gengið hefur verið frá ráðningu tveggja starfsmanna á framkvæmda- og umhverfissvið Múlaþings.

Í starf byggingarfulltrúa var ráðinn Úlfar Trausti Þórðarson. Úlfar lauk sveinsprófi í húsasmíði frá Verkmenntaskóla Akureyrar árið 1993, iðnhönnun frá Iðnskóla Hafnarfjarðar árið 1996 og BS gráðu í byggingafræðum frá Vitus Bering í Danmörku árið 2006. Hann hefur auk þess lokið D vottun í verkefnastjórnun frá Háskólanum á Akureyri. Úlfar hefur síðastliðin tvö ár starfað sem skipulags- og byggingafulltrúi Seyðisfjarðarkaupstaðar, en áður sinnti hann m.a. starfi sviðsstjóra framkvæmda- og umhverfissviðs Húnaþings vestra, framkvæmda- og þjónustufulltrúa hjá Fljótsdalshéraði og byggingarfulltrúa Fljótsdalshrepps. Úlfar kemur til starfa sem byggingarfulltrúi Múlaþings 1. nóvember.

Í starf skipulagsfulltrúa var ráðin María Markúsdóttir. María lauk BS gráðu í matvælafræði frá HÍ árið 2000, meistaragráðu í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2011 og mun á næstunni ljúka meistaragráðu í skipulagsfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún hefur undanfarið starfað sem stundakennari við Háskólann á Akureyri og sem verkefnastjóri öryggis- og vinnuverndarmála við Verkmenntaskóla Akureyrar. Á árunum 2011-2018 starfaði María sem sviðsstjóri mengunarvarnarsviðs hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og þar áður á mengunar- og matvælasviði hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. María tekur til starfa sem skipulagsfulltrúi Múlaþings þann 1. desember.

Úlfar Trausti og María eru boðin innilega velkomin til starfa í Múlaþingi.

Nýir starfsmenn í Múlaþingi
Getum við bætt efni þessarar síðu?