Fara í efni

Opið fyrir umsóknir um listamannadvöl á Seyðisfirði

01.07.2022 Fréttir Seyðisfjörður

Skaftfell á Seyðisfirði hefur nú opnað fyrir umsóknir um listamannadvöl árið 2023.

Skaftfell hefur boðið upp á slíka dvöl fyrir listamenn og -hópa síðan 2002 og hafa næstum því 300 listamenn nýtt sér aðstöðuna. Óskað er eftir umsóknum einu sinni á ári og eru þær yfirleitt fleiri en plássin sem hægt er að bjóða upp á. Þar af leiðandi er valnefnd skipuð listamönnum sem staðsettir eru á Íslandi sem sér um að velja þá sem fá úthlutaðri dvöl. Skaftfell tekur á móti um það bil 15 listamönnum í listamannadvöl ár hvert, hver og einn dvelur í einn til tvo mánuði. Listamennirnir eru á öllum aldri og hvaðanæva að úr heiminum.

Julia Martin verkefnastjóri hjá Skaftfelli segir mikilvægt fyrir samfélagið og listasenuna á Austurlandi að fá tengingu við listamenn sem búsettir eru annars staðar:

,,Þau sem koma hingað í listamannadvöl eru mikilvæg viðbót við menningarlíf bæjarins. Listamennirnir uppfæra þekkingu okkar á samtímalist og færa okkur hugsanir og fagurfræði annarra menningarheima. Þeir eru líflína fyrir Skaftfell og tengja okkur við alþjóðlega listheiminn. Listamenn búsettir á Íslandi njóta þess að hafa athvarf hér, þannig fá þeir tækifæri til að einbeita sér og komast út úr höfuðborginni um stund. Í staðinn tengja þeir Skaftfell síðan við listasenuna í Reykjavík.

Þeir listamenn sem dvelja hjá okkur eru einnig kynntir fyrir samfélaginu og þeir bjóða reglulega upp á opna viðburði eins og listamannaspjall, vinnustofur fyrir börn og fullorðna og setja upp sýningar og gjörninga. Skaftfell styður svo dyggilega við bakið á þeim í ferlinu og gerir sitt besta til þess að þeim líði eins og þeir séu heima hjá sér á Seyðisfirði. Í gegnum árin hafa þónokkrir listamenn komið aftur og jafnvel verið lengur og sumir hafa meira að segja sest að á Seyðisfirði.“

Opið er fyrir umsóknir til 1. september 2022 og þau sem vilja vita meira geta kynnt sér málið á heimasíðu Skaftfells.

Opið fyrir umsóknir um listamannadvöl á Seyðisfirði
Getum við bætt efni þessarar síðu?