Fara í efni

Plokkað í Múlaþingi 11. maí - Eyþórsdagurinn

03.05.2024 Fréttir Borgarfjörður Djúpivogur Egilsstaðir Seyðisfjörður

Stóri Plokkdagurinn var haldinn hátíðlegur um land allt þann 28. apríl síðastliðinn en vegna snjóa á vissum svæðum innan Múlaþings um miðjan apríl var ákveðið að halda hann laugardaginn 11. maí.

Á Austurlandi hefur Stóri Plokkdagurinn fengið nafnbótina „Eyþórsdagurinn“ en Eyþór Hannesson var brautryðjandi í umhverfishreinsun. Eyþór hóf að tína upp rusl og annað sem á vegi hans varð í reglulegum göngu- og hlaupaferðum sínum um Hérað og var heiðraður af Náttúruverndarsamtökum Austurlands árið 2017.

Á deginum tökum við Eyþór okkur til fyrirmyndar og sameinumst í að huga að nærumhverfinu og tína upp rusl sem liggur á víðavangi eftir veturinn. Dagurinn er hugsaður sem vitundavakning og hvatning til okkar allra um að huga að umhverfinu og neyslu. Að fara út að tína rusl er góð og gagnleg útivist og eru fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök, fjölskyldur og einstaklingar hvött til að taka þátt og hreinsa til í nærumhverfi sínu.

Hægt verður að nálgast gefins ruslapoka í þjónustumiðstöðvum sveitarfélagsins á opnunartíma þeirra fram að Eyþórsdeginum. Endurvinnanlegt plast fer í glæra plastpoka og annar úrgangur í svarta plastpoka. Starfsmenn þjónustumiðstöðva munu hirða upp poka og annað eftir ruslatínslu bæjarbúa en gott er að skilja pokana eftir á gatnamótum við aðalgötur eða við upphaf botnlanga. Mikilvægt er að binda vel fyrir pokana áður en skilið er við þá.

Íbúar og aðrir eru hvattir til að gera sér glaðan dag laugardaginn 11. maí en Múlaþing styður við aðila sem vilja halda utan um daginn í hverjum þéttbýliskjarna.

Á Egilsstöðum mun Rótarýklúbbur Héraðsbúa plokka milli klukkan 10–12. Mæting er í Tjarnargarðinn en þar verður hægt að nálgast ruslapoka og fá lánaðar ruslatínur meðan birgðir endast. Að loknu plokki verður pylsugrill í garðinum.

Á Djúpavogi munu Íbúasamtökin plokka milli klukkan 10–12. Mæting er við ærslabelginn og verður hægt að nálgast ruslapoka og fá lánaðar ruslatínur meðan birgðir endast. Að loknu plokki verður pylsugrill í garðinum.

Áhugasöm um að halda utan um Plokkdaginn á öðrum stöðum og halda pylsugrill að plokki loknu eru hvött til að hafa samband við verkefnastjóra umhverfismála í gegnum: umhverfisfulltrui@mulathing.is

Nokkrir hlutir sem gott er að hafa í huga áður en haldið er út að tína rusl:

  • hafa með sér vinnu- eða gúmmíhanska
  • klæða sig eftir veðri
  • ákveða svæði og tala sig saman við aðra plokkara
  • brýna fyrir börnum að vara sig á öddhvössum eða beittum hlutum

Þjónustumiðstöðvar Múlaþings eru á eftirfarandi stöðum:
Egilsstaðir: Tjarnarás 9
Seyðisfjörður: Fjarðargata 2
Djúpivogur: Víkurland 6
Borgarfjörður: Heiði

Plokkað í Múlaþingi 11. maí - Eyþórsdagurinn
Getum við bætt efni þessarar síðu?