Ráðherra menningar-, nýsköpunar- og háskólamála sótti Austurland heim fimmtudaginn 16. október og fundaði þá með sveitarstjóra Múlaþings, bæjarstjóra Fjarðabyggðar og framkvæmdastjóra Austurbrúar um stöðu menningarmiðstöðva á Austurlandi.
Sem stendur eru menningarmiðstöðvarnar á Austurlandi þrjár, þær eru Skaftfell á Seyðisfirði, Sláturhúsið á Egilsstöðum og Tónlistarmiðstöðin á Eskifirði. Legið hefur fyrir ríkur vilji til að bæta við fjórðu menningarmiðstöðinni sem verður þá Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði. Ráðherra mætti til að ræða þessa hugmynd og framtíðarfjármögnun þessara mikilvægu miðstöðva menningar í fjórðunginum.
„Samtalið var gott og skilningur ráðherra á mikilvægi öflugs menningarlífs á Austurlandi var ríkur enda langt fyrir Austfirðinga að sækja menningu til Reykjavíkur eða Akureyrar og því mikilvægt að við getum verið sjálfbær um það. Austurland er enda þekkt fyrir ríkt menningarlíf og það er ekki síst öflug starfsemi þessara menningarmiðstöðva sem drífur það áfram.“ sagði Dagmar Ýr sveitarstjóri Múlaþings að fundi loknum.
Ráðherrann skoðaði Sláturhúsið og fékk kynningu á þeim endurbótum sem hafa verið gerðar á húsinu auk þess að skoða þær sýningar sem nú eru í húsnæðinu, annars vegar sýningu um ævi Kjarvals og hins vegar yfirlitssýning á verkum Linusar Lomann.
Sem fyrr segir starfa nú þegar þrjár menningarmiðstöðvar á Austurlandi. Skaftfell á Seyðisfirði er miðstöð myndlistar í fjórðungnum. Þar er öflugt sýningahald og viðburðadagskrá, gestavinnustofur fyrir alþjóðlega listamenn og öflug fræðslustarfsemi fyrir öll skólastig. Sláturhúsið á Egilsstöðum er miðstöð sviðslista og sem slík leggur hún áherslu á þær. Þar hefur verið byggð upp góð aðstaða fyrir hvers kyns sviðslistir en auk þeirra fer margvísleg önnur lista- og menningarstarfsemi fram í húsinu, meðal annars fjölbreyttar myndlistarsýninga og fræðslustarf fyrir börn. Tónlistarmiðstöð Austurlands er staðsett á Eskifirði. Hún stendur fyrir eflingu tónlistarlífs í gegnum viðburði, samtarfsverkefni og fræðsluverkefni.
Miðstöðvarnar eiga í góðu samstarfi og vinna saman að margvíslegum verkefnum, meðal annars BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi en miðstöðvarnar hafa verið leiðandi í uppbyggingu hátíðarinnar.