Fara í efni

Rampur númer 800 vígður á Egilsstöðum

01.09.2023 Fréttir Egilsstaðir

Rampur númer 800 var vígður á Egilsstöðum í gær.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson héldu ræður við hátíðlega athöfn.

Við vígsluna sagði Katrín Jakobsdóttir meðal annars „Römpum upp Ísland er dæmi um þann kraft sem hægt er að framkalla með samstarfi allra aðila en 800 rampar eru auðvitað ótrúlegur árangur. Ekki síður hefur þetta àtak vakið okkur öll til meðvitundar um alla þá þröskulda sem finna má í samfélaginu - bæði áþreifanlega og óáþreifanlega - og hvernig við getum saman rutt þeim úr vegi til að tryggja jafnt aðgengi okkar allra. Og síðast en ekki síst ber að þakka frumkvæði Haraldar Þorleifssonar sem hefur verið algjör frumkvöðull í þessari baráttu fyrir betra samfélagi.“

Römpum upp Ísland var sett af stað árið 2022 til að bæta aðgengi að verslunum, veitingastöðum og öðrum samkomu- og þjónustuaðilum um allt land.

Í upphafi var markmiðið að byggja 1000 rampa um allt land á fjórum árum en verkefnið hefur gengið vonum framar. Nú 18 mánuðum síðar eru þegar komnir 800 rampar og stefnir í að fyrstu 1000 ramparnir klárist á næstu mánuðum.

Vegna góðs gengis var markmiðið hækkað upp í 1500 rampa á síðasta ári með skemmtilegum hætti þegar Guðni Th. Jóhannesson forseti greip orðið á blaðamannafundi.

Haraldur Þorleifsson sagði í tilefni vígslunnar í dag: “Ég á mjög fallegar minningar um að ferðast um landið með fjölskyldunni minni þegar ég var yngri. Langar fallegar sumarnætur í fallegri náttúru og heit pulsa í bæjarsjoppum landsins. Ég áttaði mig á því fyrir nokkrum árum að börnin mín hafa ekki fengið þessar upplifanir. Við fjölskyldan höfum ekki getað ferðast um landið þar sem aðgengið hefur ekki verið nógu gott. Þúsundir aðrir einstaklingar og fjölskyldur eru í sömu stöðu. Mig hlakkar mikið til að byrja að sýna krökkunum fallega landið okkar. Það hefur verið frábært að sjá móttökurnar eftir að við lögðum af stað. Allt samfélagið hefur komið saman og það hefur skilað sér í þessum frábæra árangri.”

Rampur númer 800 vígður á Egilsstöðum
Getum við bætt efni þessarar síðu?