Fara í efni

Rb-blöð aðgengileg á netinu

20.08.2021 Fréttir

Útgáfa Rb-blaðanna hefur færst frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands yfir til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Hingað til hafa flest blöðin einungis verið aðgengileg í áskrift en HMS hefur opnað fyrir aðgengi að þeim öllum og nú er hægt að nálgast eldri útgáfur á heimasíðu HMS. Núverandi framsetning er aðeins tímabundin en unnið er að því að setja blöðin fram með skýrari og aðgengilegri hætti.

Í Rb-blöðunum er fjallað um helstu málefni sem snerta byggingariðnaðinn og niðurstöður nýjustu rannsókna sem haft geta áhrif á byggingaraðferðir. Til að mynda er þar fjallað um rannsóknir á rakaskemmdum og ýmsum ábendingum komið til byggingaraðila byggt á reynslu sem orðið hefur til hérlendis. Blöðin eru mikið notuð af fagmönnum í byggingariðnaði og húseigendum til viðmiðunar um viðhald og gerð mannvirkja.

Flutningi útgáfunnar til HMS er ætlað að stuðla að bættri upplýsingamiðlun og nýsköpun innan byggingariðnaðarins og styðja við uppbyggingu á öruggari, hagkvæmari og vistvænni mannvirkjum. Stefnt er að því að þróa og efla efnistök, framsetningu og aðgengi blaðanna enn frekar í samstarfi við hagaðila byggingariðnaðarins. Flutningur á útgáfu Rb-blaðanna mun styrkja gagnagrunna stofnunarinnar á sviði mannvirkjamála og um leið efla mikilvægt leiðbeiningar- og fræðsluhlutverk sem HMS hefur nú þegar gagnvart mannvirkjageiranum. Þá verður eftirlit með byggingavörum einnig aukið og áhersla lögð á að prófanir þess verði í samræmi við alþjóðlegar kröfur.

 

Eitt elsta tímarit landsins

Rb-blöðin eru eitt elsta tímarit landsins en það var fyrst gefið út árið 1973 sem þýðir að þau hafa komið út í tæpa hálfa öld. Þá eru Rb-blöðin líklega eitt fárra útgáfurita sem hefur verið viðfangsefni meistararitgerðar í Háskóla Íslands en það gerðist árið 2019 þegar Helga Halldórsdóttir skrifaði um tímaritið og útgáfusögu þess í tengslum við nám sitt í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Með flutningi Rb-blaðanna til HMS verður tekið næsta skref í þessari upplýsingamiðlun með þéttari og markvissari útgáfu skýrslna og rannsóknarniðurstaðna og með nýtingu nýrra miðla við fræðslu til almennings og fagfólks.

 

 

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Getum við bætt efni þessarar síðu?