Fara í efni

Rýnt í lággróðurinn á sumarsýningu ARS LONGA

03.07.2025 Fréttir Djúpivogur

Sumarsýning samtímalistasafnsins ARS LONGA á Djúpavogi var opnuð við hátíðlega athöfn og að viðstöddu fjölmenni um liðna helgi. Á sýningunni sem ber yfirskriftina Í lággróðrinum kannar listafólk með fjölbreyttum hætti flókin tengslanet sem tengja okkur við landið, sameiginlegt minni og sögulega framvindu tímans.

Alþjóðlega samtímalistasafnið ARS LONGA var stofnað af listamönnunum Sigurði Guðmundssyni og Þór Vigfússyni árið 2021. Tilgangur safnsins er að vera leiðandi vettvangur alþjóðlegrar samtímalistar á Íslandi og efla tengsl og samvinnu við listamenn og fagaðila með framsæknu sýningarhaldi.

Á sýningunni Í lággróðrinum eru sýnd verk þrettán listamanna frá fimm löndum. Verkin eru jafn ólík og þau eru mörg en eiga það sameiginlegt að í þeim er grafist fyrir um flókin tengsl okkar við land, haf, skóg, plöntulíf og þann kyrrláta lífskraft sem gjarnan leynist undir niðri.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sveitarstjóri Múlaþings, opnaði sýninguna formlega. Í ávarpi sínu minnti hún viðstadda á að list þarf ekki alltaf að skiljast heldur fyrst og fremst að finnast: „Stundum er nóg að spyrja: Hvaða tilfinningu vekur þetta verk hjá mér og hvers vegna? Listafólk er oft að miðla einhverju sem erfitt er að segja beint og við erum misopin fyrir þeim boðskap. En það er einmitt hluti af því sem gerir góða list kraftmikla, hún kallar ekki bara fram tilfinningar, hún býður okkur að taka þátt.“

Auk Dagmarar flutti Sigurður Guðmundsson annar stofnenda ARS LONGA ávarp, svo og sýningarstjórarnir, þær Becky Forsythe & Þórhildur Tinna Sigurðardóttir. Þá fluttu þau Regn Evu og Wiola Ujazdowska áhrifamikla gjörninga.

Sýningin Í lággróðrinum er til húsa að Vogalandi 5 á Djúpavogi og stendur yfir til 10. ágúst.

Rýnt í lággróðurinn á sumarsýningu ARS LONGA
Getum við bætt efni þessarar síðu?