Fara í efni

Samningur gerður um fullnaðarhönnun á Baugi Bjólfs

Múlaþing hefur samið við Arkibygg og exa nordic um fullnaðarhönnun á útsýnisstaðnum við Bjólf.

Sveitarfélagið efndi í júní 2021 til samkeppni um skipulag og hönnun áfangastaðar og útsýnissvæðis við snjóflóðavarnagarða í Bjólfi á Seyðisfirði. Vinningstillagan, Baugur Bjólfs, var unnin í þverfaglegu samstarfi. Ástríður Birna Árnadóttir og Stefanía Helga Pálmarsdóttir frá Arkibygg Arkitektum eru aðalhönnuðir og unnu verkefnið í samvinnu við við Önnu Kristínu Guðmundsdóttur og Kjartan Mogensen landslagsarkitekta, Auði Hreiðarsdóttur frá ESJA Architecture og Arnar Björn Björnsson frá exa nordic sem sá um burðarvirkjahönnun.

Múlaþing hlaut styrk frá Framkvæmdasjóði Ferðamannastaða til að vinna áfram vinningstillöguna og stefnt er að því að hún verði tilbúin í haust. Hönnunarhópurinn var við störf á Seyðisfirði í síðustu viku og kannaði aðstæður en vegurinn að snjóflóðavarnargörðunum var opnaður fyrir skemmstu.

Baugur Bjólfs verður hringlaga útsýnispallur sem situr á Bæjarbrún. Þar er einstakt útsýni yfir Seyðisfjörð — frá mynni fjarðarins, yfir bæinn, fjallahringinn og suðvestur inn í dalinn. Að ofanverðu gnæfa tindar Bjólfs yfir. Efnisval útsýnispallsins samanstendur af steypu, stáli og lerki sem skapar heildstætt útlit í gráum silfurtónum. Áhersla er á lítið og einfalt viðhald og góða endingu.

Í Landnámu er sagt frá landnámsmanninum Bjólfi sem fyrstur nam Seyðisfjörð. Ekki er mikið fjallað um ferðir Bjólfs í Landnámabók, en sagan segir að hann sé heygður hátt uppi í fjallinu. Minjar hafa fundist frá landnámsöld á svæðinu, en höfðingjar voru iðulega heygðir með sverð sín, skart og silfur. Haugfé Bjólfs hefur ekki fundist en hér er ímyndunaraflinu gefið lausan tauminn og Bjólfi látinn eftir silfurbaug mikinn. Hringurinn er leikandi vísun í söguna en hringformið hefur einnig mikil gæði í einfaldleika sínum, bæði hvað varðar upplifun og tæknilega útfærslu.

Baugurinn verður dýrmæt viðbót við þá áfangastaði sem eru nú þegar til staðar í Múlaþingi og mikil tilhlökkun er fyrir samstarfi sveitarfélagsins og teymisins sem kemur að Baugi Bjólfs.


Getum við bætt efni þessarar síðu?