Fara í efni

Seinni úthlutun menningarstyrkja Múlaþings á árinu 2022

29.09.2022 Fréttir

Byggðaráð Múlaþings auglýsti í september til umsóknar styrki til menningarstarfs. Um var að ræða seinni úthlutun menningarstyrkja Múlaþings vegna verkefna á árinu 2022 en fyrri og stærri úthlutun var í janúar.

Alls bárust umsóknir frá 20 einstaklingum og stofnunum vegna 23 verkefna. Sótt var um styrki fyrir rúmlega 16 milljónir en heildarkostnaður verkefna nam rúmum 49 milljónum. Veittir styrkir vegna verkefna voru alls 1.925.000 kr.

Við seinna umsóknarferli menningarstyrkja er úthlutað 11,6% af þeirri upphæð sem sótt var um og því ljóst að hafna þurfti mörgum frambærilegum verkefnum. Til samanburðar var úthlutað í janúar 45,9% af styrkumsóknum. Áhersla var lögð á að veita verkefnum styrki sem hafa ekki hlotið stuðning Múlaþings á árinu. Hæsti styrkur í seinni úthlutun var 300.000 kr.

Múlaþing er ríkt af drífandi og skapandi fólki sem endurspeglast í þeim umsóknum sem bárust. Verkefnin eru fjölbreytt og spanna meðal annars bókaútgáfur, tónleika, sviðslistaverk, myndlistarsýningu og námskeið sem verða unnin innan Múlaþings.

Umsækjendum er hér með þakkað fyrir umsóknir og óskað velgengni með öll þau fjölbreyttu verkefni sem hlutu styrki.

Umsóknarferli fyrir menningarstyrki Múlaþings árið 2023 hefst í nóvember.

Þau verkefni sem hlutu styrk:

Blábjörg ehf.
Jólastund á Borgarfirði eystra

Jólastund við gömlu bryggjuna á Borgarfirði eystra. Lifandi tónlist og afþreying við bryggjuna ásamt öðrum viðburðum í þorpinu á svokölluðum jóladegi sem fyrirtæki á Borgarfirði standa fyrir. Markmið verkefnisins er að fjölga viðburðum á Borgarfirði eystra yfir vetrartímann og fá fólk úr nærliggjandi byggðalögum að heimsækja litla þorpið okkar. Búa til íslenskt jólaþorp til að auðga og styrkja innviði mannlífsins á Borgarfirði í myrkasta skammdegi ársins.
Úthlutun: 300.000 kr.

Heiðveig Agnes Helgadóttir
Heimasíða Helga Hallgrímssonar fræðimanns á Egilsstöðum

Í fórum Helga er ógrynni af greinum og öðru rituðu efni, sem er verið að vinna í að setja inn á heimasíðu undir hans nafni, https://helgihallgrims.is/ er heimasíða Helga Hallgrímssonar fræðimanns á Egilsstöðum. Hér er um að ræða óútgefið efni ásamt efni sem er þegar útgefið en mikið af því er ekki aðgengilegt lengur.
Úthlutun: 275.000 kr.

Kór Egilsstaðakirkju
Almenn starfsemi Kórs Egilsstaðakirkju Vortónleikar – tónleikaferð

Vortónleikar með ferðakostnaði til heimsóknar á Hvammstanga, þar sem haldnir voru tónleikar í kirkjunni. Fyrirhugaðir aðventutónleikar í Egilsstaðakirkju í ár. Söngur við athafnir í Egilsstaðakirkju.
Úthlutun: 200.000 kr.

Leikfélag Fljótsdalshéraðs
Uppsetning Leikfélags Fljótsdalshéraðs á Gulleyjunni

Leikfélag Fljótsdalshéraðs hyggst setja upp verkið Gulleyjuna eftir leikgerð Karl Ágústs Úlfsonar og Sigurðar Sigurjónssonar. Notast verður við hið nýja blackbox Sláturhússins. Leikstjóri er Valgeir Skagfjörð. Markhópur sýningarinnar er fjölskyldufólk.
Úthlutun: 200.000 kr.

Litten Nyström
Litir Austurlands
Litir Austurlands mun nýta svæðisbundna liti í litarefni, í litlum einstökum upplögum, búa til liti sem geta ferðast um allan heim og verða grunnur að listaverkum sem unnin eru á Austurlandi eða annars staðar. Settu þannig svæðislitina á heimskortið fyrir listamenn, handverksmenn, börn og litaunnendur sem þekkja uppruna litarins.
Úthlutun: 200.000 kr.

Norræna Félagið á Austurlandi
Norrænn dagur

Norrænn dagur, viðburður á vegum Austurlandsdeildar Norræna félagsins í tenglum við Daga Myrkurs. Í þetta sinn verður áhersla á Færeyjar, fengið verður til færeyskt tónlistafólk og boðið verður upp á færeyskar veitingar.
Úthlutun: 150.000 kr.

Ólöf Björk Bragadóttir
Listaljós í Austri

Verkefnið skiptist í námskeið í listsköpun og listasýninguna LISTALJÓS Í AUSTRI. Þátttakendur námskeiðsins munu skoða samspil ljóss og skugga og vinna að frjálsri listsköpun með fjölbreyttri tækni. Verkefnin verða með skírskotun til Hrekkjahátíðarinnar sem hefur átt sér tengingu við Daga Myrkurs á Austurlandi síðastliðin ár. Námskeiðið verður haldið í Geðræktarmiðstöð Ásheima og afraksturinn sýndur í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á Dögum myrkurs.
Samstarfsaðilar: Geðræktarmiðstöð Ásheima, Stólpi, ME, Sláturhúsið, List án Landamæra, Dagar Myrkurs.
Úthlutun: 200.000 kr.

Sinfóníuhljómsveit Austurlands
Kvikmyndatónleikar
Sinfóníuhljómsveit Austurlands heldur tónleika í nóvember 2022 í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði og flytur þar nokkrar af helstu perlum kvikmyndatónlistarinnar. Á dagskrá verða fjölbreytt verk sem höfða til allra aldurshópa. Tónleikarnir verða sannkölluð veisla fyrir kvikmyndaunnendur og þá sem njóta kvikmyndatónlistar.
Úthlutun: 200.000 kr.

Ströndin Atelier ehf.
Skriðusögur a photography book
Útgáfa á bók sem segir sögu Seyðisfjarðarskriða í desember 2020. Bókin sameinar ljósmyndir, listaverk og texta. Bókin er hönnuð, ritstýrð og gefin út af Ströndin Studio og skrifuð af meðhöfundum úr nærsamfélaginu.
Úthlutun: 200.000 kr.

Seinni úthlutun menningarstyrkja Múlaþings á árinu 2022
Getum við bætt efni þessarar síðu?