Fara í efni

Síðasti fundur fráfarandi ungmennaráðs Múlaþings

27.06.2022 Fréttir

Á síðasta fundi ungmennaráðs Múlaþings var samþykkt ályktun ungmennaþings 2022 og eins var farið yfir niðurstöður á bæði endurgjöf þinggesta og starfsfólks á skipulagi þingsins.

Ályktunina er hægt að lesa í fundargerð en þinggestir tóku á ýmsum málefnum eins og auknu vali í grunnskólum, jafnrétti í skólastarfi, starfsemi félagsmiðstöðva, samgöngum, íþrótta- og tómstundastarfi og fleiru.

Verður öllum ábendingum og hugmyndum ungmennaþings komið áfram til viðeigandi stofnana, ráða og nefnda í Múlaþingi.

Til viðbótar við ályktun ungmennaþings nýttu meðlimir ungmennaráðs Múlaþings þennan síðasta fund sinn til að hvetja ungt fólk í sveitarfélaginu til þess að bjóða sig fram til þátttöku í ráðinu. Þau minntu á mikilvægi þess að raddir ungmenna í sveitarfélaginu heyrist og að stjórnsýslan hlusti.

Þá minnti ráðið önnur ráð og nefndir í Múlaþingi á störf ungmennaráðs og að í erindisbréfi ráðsins segir „Nefndir og ráð sveitarfélagsins senda ungmennaráði, til umsagnar, öll málefni sem snerta ungt fólk og börn sérstaklega.“ Bendir ráðið á að ráð og nefndir mega vera duglegri við að fá umsagnir og afstöðu ungmennaráðs til ýmissa mála, en það er hópurinn sem lifir með þeim ákvörðunum sem teknar eru í dag.

Ungmennaráð Múlaþings hefur staðið sig frábærlega frá sameiningu og hefur komið mörgum málefnum til leiðar auk þess að vekja athygli á enn fleiri.

Í haust verður sett saman nýtt ráð samkvæmt erindisbréfi og er ljóst að mikil og spennandi vinna er fyrir höndum.

Ungmennaráð Múlaþings.
Ungmennaráð Múlaþings.
Getum við bætt efni þessarar síðu?