Fara í efni

Síðasti fundur Helgu eftir 24 ár í starfi

24.05.2022 Fréttir

Helga Guðmundsdóttir fræðslustjóri sat sinn síðasta fund með fjölskylduráði þann 3. maí síðastliðinn.

Helga hóf störf hjá Austur-Héraði og sinnti þá starfi forstöðumanns fræðslu- og menningarsviðs, og starfsvettvangur hennar var leik-, grunn- og tónlistarskólar, íþrótta- og æskulýðsmál og menningarmál.

Við sameiningu og tilurð sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs var hún ráðin í starf fræðslufulltrúa en starfsvettvangurinn var alltaf skólamálin og lengst af líka félagsmiðstöðvastarfsemin. Starfsheitinu var síðar breytt í fræðslustjóra, það breytti þó ekki starfsvettvangnum, heldur átti heitið betur við ábyrgð og skyldur og þær hefðir sem samfélagið þekkir best.

Aðspurð segir Helga það sem standi upp úr eftir þennan tíma sé hvað þetta er mikilvægur vettvangur og hversu spennandi það hefur verið að fá tækifæri til að móta og styðja starf þar sem grunnur er lagður að framtíð samfélagsins. Henni hefur fundist spennandi áskoranir að taka þátt í þeim samfélagslegu breytingum sem hafa orðið á þessum tíma, m.a. með sameiningum sveitarfélaga og auknum verkefnum á þessum starfsvettvangi. Hún hefur unnið með frábæru fólki sem hefur mikinn metnað fyrir því faglega starfi sem unnið er í skólunum og það hefur verið ómetanlegt. Þá hefur henni alltaf þótt gaman að mæta í vinnuna þrátt fyrir að sumir dagar bjóði upp á verkefni sem eru ekki endilega einföld eða létt.

Helga mun láta af störfum síðar í sumar og er henni óskað velfarnaðar í framtíðinni.

Múlaþing kann henni bestu þakkir fyrir vel unnin störf.

Síðasti fundur Helgu eftir 24 ár í starfi
Getum við bætt efni þessarar síðu?