Fara í efni

Sigurvegari í söngkeppni Samfés 2023

08.05.2023 Fréttir Egilsstaðir

Ína Berglind Guðmundsdóttir, úr félagsmiðstöðinni Nýung á Egilsstöðum, bar sigur úr bítum í söngkeppni Samfés sem haldin var í Laugardalshöllinni um helgina. Ína söng lag sem hún samdi sjálf og heitir Tilgangslausar setningar.

„Lagið fjallar um þessi comment sem festast stundum inni í manni og maður þarf að geta tekið utan um sjálfan sig“ segir Ína Berglind um lagið sem hún samdi fyrr á þessu ári.

Hægt er að horfa á flutning Ínu á RÚV en Ína var fyrst á sviðið, keppnin var send út í beinni útsendingu.

Aðspurð segist Ína Berglind ekki hafa átt von á þessu. „Ég heyrði þegar Nýung var tilkynnt sem sigurvegari en það tók mig alveg smá stund að átta mig á því að það væri ég, að ég hefði í raun og veru unnið keppnina.“ Ína, sem er í 10. bekk Fellaskóla, hefur lagt stund á söng í Tónlistarskólanum í Fellabæ og í Tónlistarskólanum á Egilsstöðum en hún samdi sitt fyrsta fullkláraða lag 8 ára gömul 

Árni Pálsson, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Nýungar, segist lengi hafa beðið eftir fyrsta sigri Nýungar. „Við erum alveg að rifna úr stolti yfir Ínu okkar, hún er svo sannarlega vel að þessum sigri komin. Ég held ég hafi aldrei séð sterkari keppni en nú í ár, alveg ótrúlega hæfileikaríkir krakkar frá öllum félagsmiðstöðvunum,“ segir Árni og bætir við að sigur sem þessi setji nýjan tón fyrir starfið í Nýung. „Þetta er svo gaman fyrir okkur öll, að eiga öflugt tónlistarfólk, og það smitar ábyggilega út frá sér í auknum áhuga á undankeppninni fyrir söngkeppnina á næsta ári.“

Ína með dómnefndinni      Ína með verðlaunin

Í sigurlaun hlaut Ína Berglind meðal annars upptökutíma í hljóðveri í Reykjavík. „Það er mjög spennandi að eiga það inni. Ég hugsa samt að ég vilji frekar taka þetta lag upp hér fyrir austan, til dæmis í hljóðverinu á Stöðvafirði. Það er bara rökréttara fyrir mér, ég samdi þetta lag hér og vil taka það upp hér.“ Ína stefnir á að starfa við tónlist. „Ég myndi allra helst vilja vinna við eitthvað tónlistar- eða menningartengt, þar liggur mín ástríða og það væri alveg geggjað að geta unnið við það.“

Múlaþing óskar Ínu Berglindi og félagsmiðstöðinni Nýung innilega til hamingju með sigurinn.

Sigurvegari í söngkeppni Samfés 2023
Getum við bætt efni þessarar síðu?