Fara í efni

Skilti og merkingar

23.10.2023 Fréttir

Skilti sem eru yfir 1,5 m2 eru alltaf byggingarleyfisskyld. Undanþegin eru skilti allt að 2 m2 sem eiga standa skemur en tvær vikur.

 

Skilti og merkingar eru hluti af útliti bæja og þjóna í því samhengi mikilvægu hlutverki í að auðvelda íbúum að finna fyrirtæki og þjónustustofnanir. Vert er að hafa í huga að umhverfi okkar er sameiginlegt rými okkar allra sem ber að virða. Skilti og merkingar geta haft mikil áhrif á upplifun fólks af sínu nærumhverfi og jafnvel valdið umtalsverðri ljósmengun. Þar sem þéttleiki er mikill þarf að gæta jafnræðis milli sýnileika einstakra aðila og ásýndar svæðis. Sama getur átt við þegar um víðfeðm svæði er að ræða þá getur eitt skilti haft svo mikil áhrif að það fari ekki fram hjá neinum sem fer þar um og breytir umtalsvert heildarásýnd svæðisins. Mikilvægt er að skilti séu ekki íþyngjandi fyrir íbúa og valdi þeim ama. Öryggissjónarmið eiga einnig við þar sem áberandi skilti geta haft áhrif á öryggi vegfarenda og aukið hættu á umferðarslysum. Þar sem um fjöleignarhús er að ræða getur þurft skriflegt leyfi meðeigenda.

 

Þegar sótt er um byggingarleyfi fyrir skilti eða merkingum samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 með áorðnum breytingum þá er tekin afstaða til þess hvort viðkomandi mannvirki kalli á umsagnir umsagnaraðila og öryggi almennings sé tryggt.

 

Á heimasíðu Múlaþings eru gagnlegar upplýsingar undir tákninu byggingarmál sem gott er að kynna sér. Sótt er um byggingarleyfi í gegnum mínar síður Múlaþings með rafrænum skilríkjum.

 

Til þess að hægt sé að taka afstöðu til umsókna um byggingarleyfi þarf umsækjandi að senda rafræna umsókn ásamt tilheyrandi gögnum til leyfisveitanda. Tilheyrandi gögn eru m. a. uppdrættir og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að sýna útlit, fyrirkomulag og öryggi skiltanna. Um auglýsingar meðfram vegum og annars staðar utan þéttbýlis skal gæta ákvæða laga um náttúruvernd og umferð. Ef ekki liggur fyrir deiliskipulag sem tekur á skiltum eða deiliskipulag er ekki til staðar getur þurft að grenndarkynna áformin áður en afstaða er tekin til útgáfu byggingarleyfis.

 

Lög sem gilda um skilti eru eftirfarandi:

 

Ákvæði mannvirkjalaga nr. 160/2010

Ákvæði 2.5 kafla byggingarreglugerðar nr. 112/2012

Ákvæði 5.3.2.3 gr. Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013

Ákvæði laga um náttúruvernd nr. 60/2013

Ákvæði 90. gr. umferðarlaga nr. 77/2019

Skoða þarf Aðalskipulag fyrir viðkomandi svæði með tilliti til skilta ásamt deiliskipulagi viðkomandi svæðis ef það liggur fyrir.

 

Leiðbeiningar um skilti á ferðamannastöðum:

Handbók um merkingar á ferðamannastöðum og friðlöndum, gefin út af Umhverfisstofnun.

Skilti og merkingar
Getum við bætt efni þessarar síðu?