Fara í efni

Sláturhúsið fær styrk úr Sviðslistasjóði

25.01.2023 Fréttir Egilsstaðir

Sláturhúsið, sviðslistamiðstöð Austurlands fékk á dögunum styrk úr Sviðslistasjóði upp á samtals 18.320.000 sem skiptist í 10.200.000 króna verkefnastyrk og samtals 16 mánaða listamannalaun til handa sviðslistafólki. Styrkurinn er til uppsetningar á barnaleikritinu Hollvætturinn á heiðinni, sem er nýtt frumsamið barnaleikrit sem sett verður upp í Sláturhúsinu á hausti komandi.

Undirbúningur að verkefni hefur staðið yfir í rúmt ár, en hugmyndin um að opna sviðslistarými Sláturhússins með frumsömdu barnaleikriti kviknaði í kjölfarið á uppsetningu leikhópsins Svipir á Sunnefu í Sláturhúsinu. Þór Túliníus, sem meðal annars leikstýrði Sunnefu sýningunni, var fengin til að skrifa uppkast að handriti og síðar fullvinna það.

Sagan um hollvættinn á heiðinni sækir innblástur í þjóðsögur og náttúruumhverfi Austurlands, þar eru börn í aðalhlutverki, uppátæki þeirra og ævintýraþrá. Sýningin er samstarfsverkefni Sláturhússins og leikshópsins Svipir og er Sláturhúsið framleiðandi verkefnisins. Að uppsetningunni kemur stór hópur atvinnusviðslistafólks en leikstjóri verksins verður Ágústa Skúladóttir, búningar og leikmynd eru á höndum Þórunnar Maríu Jónsdóttur og Karl Ágúst Úlfsson semur söngtexta. Fjöldi atvinnuleikara og brúðustjórnenda tekur þátt í sýningunni en einnig verður leitað til áhugaleikhússfólks á svæðinu í hlutverk, og þá ekki síst í aðalhlutverkin, systkynin Fúsa og Petru, sem eru á barnsaldri.

Það er mikill heiður fyrir Sláturhúsið sviðslistamiðstöð að hljóta þennan styrk og er hann jafnan viðurkenning á því kraftmikla starfi sem að farið hefur fram í Sláturhúsinu hingað til ásamt framtíðarsýn okkar á hlutverk okkar sem sviðslistamiðstöð Austurlands. Að auki er þetta viðurkenning á því að með tilkomu hins nýja og glæsilega sviðslistarýmis í Sláturhúsinu opnist möguleikar á að hér verði reglulega hægt að bjóða upp á atvinnuleiksýningar sem unnar eru hér frá grunni.

Sláturhúsið fær styrk úr Sviðslistasjóði
Getum við bætt efni þessarar síðu?