Fara í efni

Staða vatnsmála í dreifbýli Múlaþings

06.09.2021 Fréttir

Vegna mikillar þurrkatíðar undanfarna mánuði er komin upp sú staða víða í sveitum Múlaþings að vatnsskortur er orðinn viðvarandi þannig að atvinnurekstur og heimilishald er orðið erfitt. Í framhaldi af ábendingum varðandi þessa stöðu var hafist handa, af starfsfólki Múlaþings og HEF veitna, í lok síðustu viku að safna saman upplýsingum um stöðu mála.

Farin er sú leið að hringja á alla bæi í sveitarfélaginu á þeim svæðum er vitað er að vatnsskorts hafi orðið vart. Teknar eru saman upplýsingar er nýttar verða til greiningar og ákvörðunartöku varðandi það hvernig brugðist verði við þessum vanda. Þegar hefur verið brugðist við á nokkrum stöðum með því að keyra vatni í tankbílum til áfyllingar á vatnstönkum er til staðar eru. Tryggt hefur verið aðgengi að tankbílum þannig að hægt verði að þjónusta bæi með þessu móti áfram. Ekki eru tankar til staðar á öllum bæjum og hefur í einhverjum tilvikum verið fyllt á sk. vatnsbamba og er til skoðunar á vegum sveitarfélagsins hvort hægt sé að fjölga slíkum lausnum á svæðinu.

Aðgerðir sem þessar hafa kostnað í för með sér fyrir þá er þjónustuna fá en sveitarfélagið og HEF horfa til þess að lágmarka kostnað eins og mögulegt er, auk þess að skoðað verður hvort notendur eigi rétt á fjárstuðningi úr opinberum sjóðum.

Þó markmiðið sé að ná að hringja í alla bæi á tilteknum svæðum er ekki sjálfgefið að náðst hafi samband í öllum tilvikum og eru þau ykkar sem eruð í vanda en hefur ekki verið haft samband við því beðin um að hringja í afgreiðslu sveitarfélagsins í síma 4 700 700 og koma nauðsynlegum upplýsingum á framfæri.

 

Björn Ingimarsson,
Sveitarstjóri Múlaþings.

Staða vatnsmála í dreifbýli Múlaþings
Getum við bætt efni þessarar síðu?