Fara í efni

Stafrænn foreldrafundur um netöryggi barna

22.11.2022 Fréttir

Miðvikudaginn 23. nóvember verður haldinn stafrænn foreldrafundur um netöryggi barna sem Ríkislögreglustjóri stendur fyrir í samvinnu við Barnaheill, 112, SAFT, Heimili og skóla, Inhope Ins@fe og Fjölmiðlanefnd.

Fundurinn er opinn öllum og foreldar sérstaklega hvött til þess að fjölmenna. Fundurinn er eingöngu á netinu og verða kynnt praktísk ráð fyrir foreldra um stafræna miðla, notkun þeirra og úrræði vegna stafrænna brota.

Skráning er hafin hér: https://bit.ly/foreldrafundur

Fundurinn hefst á kynningum og svo fylgja á eftir lifandi pallborðsumræður þar sem foreldrum á netinu verður jafnframt gert kleift að spyrja spurninga.

Þessi stafræni foreldarfundur er hluti af aðgerðum ríkislögreglustjóra gegn stafrænu ofbeldi gegn börnum í samræmi við samkomulag þess efnis við stjórnvöld. Meðal annara aðgerða er vitundavakning meðal ungmenna í 8. bekk grunnskóla um stafrænt ofbeldi og gildi samþykkis í stafrænum og kynferðislegum samskiptum. Sérstakt fræðsluefni hefur verið útbúið fyrir nemendur í 8. bekk, auk þess sem kennsluleiðbeiningar og upplýsingar fyrir foreldra eru gerð aðgengileg á íslensku, ensku og pólsku.

Tölfræði lögreglunnar, rannsóknastofnunarinnar Rannsóknar og greiningar, Fjölmiðlanefndar og Unicef á Íslandi benda til þess að stafræn kynferðisbrot sé meðal helstu ástæðna aukningar í kynferðisbrotum gegn börnum og ungu fólki. Þessi brot eru einnig í auknum mæli framin af börnum undir 18 ára aldri og því er vitundarvakningin í senn hugsuð sem fræðsla fyrir mögulega þolendur og sem forvörn fyrir mögulega gerendur. Við hvetjum foreldra barna og öll sem kunna að hafa áhuga á þessum málum að fylgjast með þessum stafræna foreldrafundi og kynna sér þá fræðslu sem er í boði til að vinna gegn stafrænu ofbeldi gegn börnum.

Fundurinn er í upptöku og verður aðgengilegur á netinu til áhorfs að honum loknum.

Stafrænn foreldrafundur um netöryggi barna
Getum við bætt efni þessarar síðu?