Fara í efni

Stór fornleifarannsókn vegna ofanflóðavarna í Seyðisfirði

01.07.2021 Fréttir

Múlaþing og Ofanflóðasjóður hafa sett af stað rannsókn á minjum sem munu hverfa undir Bakkagarð, Öldugarð og Fjarðagarð. Samið hefur verið við fyrirtækið Antikva ehf um framkvæmdina og er Ragnheiður Traustadóttir stjórnandi rannsóknarinnar. Rannveig Þórhallsdóttir er uppgraftarstjóri og um 20 fornleifafræðingar munu starfa við fornleifarannsóknina sumarið 2021 en áætlað er að verkið taki tvö ár.

Árið 1998 voru gerðar frumrannsóknir vegna snjóflóðavarnargarða á vegum Þjóðminjasafns Íslands undir stjórn Guðmundar Ólafssonar. Sýndu þær rannsóknir fram á að í bæjarhólnum í Firði hefið verið samfelld búseta frá 10. til 20. öld, auk þess sem minjar frá 17. til 19. öld fundust í bæjarhóli Jaðars. Talið er að í Firði hafi verið kirkja og kirkjugarður en minjar um það hafa enn ekki fundist.

Fornleifakönnun fór fram á svæðinu sumarið 2020 á vegum Antikva ehf. þar sem skráðar voru um 60 fornleifar á framkvæmdasvæðinu og var stór hluti þeirra kannaður með könnunarskurðum til að meta aldur og umfang þeirra minja sem hverfa munu við gerð varnargarðanna. Að fornleifakönnunni komu 12 fornleifafræðingar. Markverðustu niðurstöðurnar sýndu fram á að bæjarhóllinn á Firði er miklu stærri en áður hafði veirð áætlað og fundust umfangsmiklar minjar frá miðöldum í túninu. Sunnan við bæjarhólinn komu í ljós minjar frá 10. öld.

Í sumar beinist rannsóknin að bæjarhóli Jaðars, myllu á Mylluholti og útihúsi. Bæjarhóllinn Jaðar eru einu minjarnar um snjóflóðið 1885 sem eftir eru í hlíðinni. Undir húsinu sem varð fyrir hamfaraflóðinu eru eldri mannvirki. Myllur hafa ekki verið verið grafnar upp áður á Íslandi sem gerir rannsóknina einstaklega áhugaverða. Sumarið 2022 er gert ráð fyrir að rannsóknir hefjist á bæjarhóli Fjarðar þar sem allt bendir til að finna megi minjar frá fyrstu byggð Seyðisfjarðar.

Á vegum Antikva ehf. verður boðið upp á leiðsögn um uppgraftarsvæðið sumarið 2021, alla föstudaga kl. 14:00 nema veður hamli för.

Starfsfólk Antikva vinnur við uppgröft á bæjarstæði Jaðars (mynd: Rannveig Þórhallsdóttir)

 

 

 

 

 

Drónamynd af myllutóft (m. Hulda Björk Guðmundsdóttir)
Drónamynd af myllutóft (m. Hulda Björk Guðmundsdóttir)
Getum við bætt efni þessarar síðu?