Fara í efni

Stóra upplestrarkeppnin

23.03.2023 Fréttir

Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk var haldin í Egilsstaðaskóla þann 15. mars. Stóra upplestrarkeppnin hefur verið haldin hér á Austurlandi í rúma tvo áratugi en verkefnið hófst árið 2004 sem þróunarverkefni í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Markmið Stóru upplestrarkeppninnar eru og hafa ávallt verið þau sömu.

  • Að vekja athygli og áhuga á vönduðum upplestri og framburði.
  • Að kennarar leggi markvissa rækt við einn þátt móðurmálsins með nemendum.
  • Að fá alla nemendur til að lesa upp, sjálfum sér og öðrum til ánægju.

Ræktunarhlutinn hefst á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember og stendur fram í mars. Á þeim tíma æfa nemendur sig í upplestri, þeir njóta leiðbeininga kennara sinna um ýmislegt er varðar flutning á texta í ræðustól. Verkefninu lýkur með Héraðshátíð. Keppendur voru frá Brúarásskóla, Egilsstaðaskóla, Fellaskóla, Seyðisfjarðarskóla og Vopnafjarðarskóla.

Hátíðin fór vel fram og þátttakendur stóðu sig allir afar vel. Allir fengu þeir viðurkenningar fyrir lestur sinn og bókina Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur í viðurkenningarskyni. Sigurvegarar á hátíðinni voru Jóhann Smári Kjartansson Egilsstaðaskóla í 1. sæti, Baldur Jarl Fjölnisson Egilsstaðaskóla í 2. sæti og Sofija Una Kruze Unnarsdóttir Seyðisfjarðarskóla í 3. sæti. Sigurvegararnir hlutu gjafakort frá Íslandsbanka í verðlaun.

Á hátíðinni komu fram þrjár hljómsveitir úr Tónlistarskólanum á Egilsstöðum og léku nokkur verk við góðar undirtektir gesta.

Stóra upplestrarkeppnin
Getum við bætt efni þessarar síðu?