Stóri plokkdagurinn verður haldinn hátíðlegur um land allt sunnudaginn 27. apríl og eru öll hvött til að taka virkan þátt. Í ár verður haldið upp á daginn á ólíkum dagsetningum eftir kjörnum vegna veðurs eða annarra viðburða.
Á Austurlandi hefur Stóri plokkdagurinn fengið nafnbótina „Eyþórsdagurinn“ en Eyþór Hannesson var brautryðjandi í umhverfishreinsun. Eyþór hóf að tína upp rusl og annað sem á vegi hans varð í reglulegum göngu- og hlaupaferðum sínum um Hérað og var heiðraður af Náttúruverndarsamtökum Austurlands árið 2017.
Á deginum tökum við Eyþór okkur til fyrirmyndar og sameinumst í að huga að nærumhverfinu og tína upp rusl sem liggur á víðavangi eftir veturinn. Dagurinn er hugsaður sem vitundarvakning og hvatning til okkar allra um að huga að umhverfinu og neyslu. Að fara út að tína rusl er góð og gagnleg útivist og eru fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök, fjölskyldur og einstaklingar hvött til að taka þátt og hreinsa til í nærumhverfi sínu.
Hægt verður að fá ruslapoka og hanska og fá lánaðar ruslatínur í þjónustumiðstöðvum sveitarfélagsins á opnunartíma þeirra í kringum Eyþórsdaginn. Endurvinnanlegt plast fer í glæra plastpoka og annar úrgangur í svarta plastpoka. Starfsmenn þjónustumiðstöðva munu hirða upp poka og annað eftir ruslatínslu bæjarbúa en gott er að skilja pokana eftir á gatnamótum við aðalgötur eða við upphaf botnlanga. Mikilvægt er að binda vel fyrir pokana áður en skilið er við þá og gott að láta sveitarfélagið vita af staðsetningu þeirra.
Íbúar og aðrir eru hvattir til að gera sér glaðan dag sunnudaginn 27. apríl en Múlaþing styður við aðila sem vilja halda utan um daginn í hverjum þéttbýliskjarna með því að útvega það sem þarf í plokkið og pylsugrill að plokki loknu.
Á Borgarfirði mun UMFB hefja plokkið á sunnudaginn kl. 14 við Fjarðarborg en þar verður hægt að nálgast ruslapoka og fá lánaðar ruslatínur meðan birgðir endast. Að plokki loknu verður grillað við Fjarðarborg kl. 17. Starfsmenn þjónustumiðstöðvar munu hirða plokkaðan úrgang en jafnframt verður hægt að losa sig við slíkan úrgang í samráði við verkstjóra.
Á Seyðisfirði verður plokkað á sunnudaginn og geta íbúar fengið lánaðar ruslatínur og ruslapoka í þjónustumiðstöðinni á opnunartíma. Starfsmenn þjónustumiðstöðvar munu hirða plokkaðan úrgang en einnig verður hægt að koma með plokkaðan úrgang gjaldfrjálst á söfnunarstöðina þriðjudaginn 29. apríl.
Á Djúpavogi verður plokkað sunnudaginn 4. maí og munu Íbúasamtökin plokka milli klukkan 10–12. Mæting á leiksvæðinu inn í Blá og verður hægt að fá ruslapoka og fá lánaðar ruslatínur meðan birgðir endast. Grill og fjör á leiksvæðinu að loknu plokki. Starfsmenn þjónustumiðstöðvar munu hirða plokkaðan úrgang en einnig verður hægt að koma með plokkaðan úrgang gjaldfrjálst á söfnunarstöðina þriðjudaginn 6. maí.
Á Egilsstöðum verður plokkað sunnudaginn 11. maí vegna snjóa. Rótarýklúbbur Héraðsbúa mun plokka milli klukkan 10–12 og er mæting í Tjarnargarðinn. Þar verður hægt að nálgast ruslapoka og fá lánaðar ruslatínur meðan birgðir endast. Að plokki loknu verða grillaðar pylsur í Tjarnargarðinum. Starfsmenn þjónustumiðstöðvar munu hirða plokkaðan úrgang en einnig verður hægt að koma með plokkaðan úrgang gjaldfrjálst á söfnunarstöðina mánudaginn 12. maí.
Áhugasöm um að halda utan um Plokkdaginn á öðrum stöðum og halda pylsugrill að plokki loknu eru hvött til að hafa samband við verkefnastjóra umhverfismála í gegnum: umhverfisfulltrui@mulathing.is
Nokkrir hlutir sem gott er að hafa í huga áður en haldið er út að tína rusl:
- hafa með sér vinnu- eða gúmmíhanska
- klæða sig eftir veðri
- ákveða svæði og tala sig saman við aðra plokkara
- brýna fyrir börnum að vara sig á oddhvössum eða beittum hlutum
Ýmsar gagnlegar upplýsingar má nálgast á plokk.is.
Jafnframt eru íbúar hvattir til að nýta sér kortasjána plokkari.is en þar er hægt að merkja inn svæði sem búið er að plokka eða svæði sem þörf er á að plokka.
Þjónustumiðstöðvar Múlaþings eru á eftirfarandi stöðum:
Egilsstaðir: Tjarnarás 9
Seyðisfjörður: Fjarðargata 2
Djúpivogur: Víkurland 6
Borgarfjörður: Heiði