Fara í efni

Straumur - nýr miðbær á Egilsstöðum

24.03.2022 Fréttir Egilsstaðir

Nýlega staðfest deiliskipulag í miðbæ Egilsstaða gerir meðal annars ráð fyrir 160 íbúðum á efri hæðum og verslun og þjónustu á neðri hæðum. Miðbæjarkjarninn hefur fengið nafnið Straumur en göngugatan Ormurinn leikur þar lykilhlutverk. Múlaþing auglýsir nú eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu hins nýja miðbæjar.

Uppbygging á nýjum miðbæ á Egilsstöðum er hafin þar sem er gert ráð fyrir 160 íbúðum í bland við verslun og þjónustu. Uppbyggingin byggir á nýju deiliskipulagi sem hefur það að markmiði að skapa líflegan miðbæ með opnum torgum og grænum svæðum fjarri bílaumferð. Miðbæjarkjarninn hefur fengið nafnið Straumur en lykilhlutverk í uppbyggingu leikur göngugatan Ormurinn. Útbúin hefur verið sérstök vefsíða um kynningu á hinum nýja miðbæ sem má nálgast hér.

Markmið skipulagsins er að skapa vandaða miðbæjarbyggð, leggja grunn að fögru og vel byggðu umhverfi og skapa aðstöðu fyrir verslun og þjónustu sem laðar að íbúa fjórðungsins og ferðamenn. Gróðursæl útivistarsvæði og tenging við farþega sem ferðast um hringveginn, í gegnum alþjóðaflugvöllinn á Egilsstöðum og með Norrænu, opna einnig fyrir gríðarstór tækifæri í ferðamennsku.

Samkvæmt nýja deiliskipulaginu verður byggðin þétt til muna og hlutfall íbúða aukið til þess að ná betur markmiðum um blandaða byggð í anda vistvæns skipulags. Deiliskipulagið er reist á framtíðarsýn og stefnu sem byggir á tveimur gildum, framsækni og virðingu en stefnan hvílir á fjórum stoðum, þekkinguþjónustuvelferð og umhverfi.

Gengið er út frá því að hægt verði að hefja uppbyggingu í raunhæfum áföngum og stuðla að því markmiði að hefja uppbyggingu á göngugötunni, allt til að styrkja mannlíf og aðstæður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Múlþing auglýsir nú eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu innan fjögurra skilgreindra reita í skipulaginu, sem saman mynda kjarna nýja miðbæjarins.

Ormurinn

Lykilþáttur í skipulagstillögunni er göngu- og verslunargata sunnan Fagradalsbrautar sem kallast Ormurinn. Vísar nafnið til þjóðsögunnar um Lagarfljótsorminn. Inngangar inn í verslanir verða frá göngugötunni en bílastæði verða baka til. Umhverfið við og í kringum göngugötuna verður gert aðlaðandi með gróðri og fallegum setsvæðum.

Til að mæta ólíkum þörfum íbúa og gesta er Orminum skipt niður í þrjú minni dvalarsvæði; leiksvæði, torg og samkomusvæði sem virka eins og upphaf, miðja og endir.

Við norðurausturenda Ormsins er svæði með bekkjum og gróðri og möguleika á litlu leiksvæði. Torgið er fyrir miðri göngugötu sem mun nýtast fyrir mismunandi viðburði eins og ýmis hátíðarhöld, götu- og jólamarkað. Við suðurenda er samkomusvæði sem teygir sig niður í almenningsgarð með leiksvæði. Mikilvægt er að móta rýmið í heild sinni með fjölbreyttum gróðri til að mynda skjólgott og aðlaðandi svæði sem gott er að setjast niður, staldra við og stuðla að samskiptum við annað fólk. Tilvalið er að vera með veitingahúsarekstur á jarðhæð í húsnæði austan megin við samkomusvæðið þar sem það liggur vel að sólu og í skjóli frá vindi. Samkomusvæðið skal móta sem hring. Í honum skulu vera bekkir, gróður og útisvið til að halda fjölbreyttar samkomur. Almenningsgarðurinn mun nýtast bæði fyrir leik og útivist. Í almenningsgarðinum geta verið litlar tjarnir, boltavöllur, listaverk, grillaðstaða og fleira

Sagan

Hugmyndin að baki nýja deiliskipulaginu á sér töluverða sögu en árið 2004 var haldin hugmyndasamkeppni um nýjan miðbæ Egilsstaða þar sem arkitektastofan Arkís vann til fyrstu verðlauna. Deiliskipulag var samþykkt árið 2006 eftir samráð við hagsmunaaðila á svæðinu og umræðu á íbúaþingi en það komst aldrei til framkvæmda.

Árið 2015 hófst á ný undirbúningur við breytingu á deiliskipulaginu og var ARKÍS falið að vinna skipulagið í samvinnu við bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs. Ári seinna voru frumdrögin kynnt í stýrihópi og árið 2021 var endurskoðað skipulag samþykkt.

Tölulegar upplýsingar um deiliskipulagið:

  • Samkvæmt deiliskipulaginu er um 95.588 fm2 svæði að ræða þar af 51.526 fm2 af byggingum.
  • Núverandi byggingarmagn er um 28.000 m2
  • Byggingarmagn nýbygginga ofanjarðar er um 23.800 m2
  • Heildarfjöldi íbúða er 161
  • Heildarfjöldi bílastæða á skipulagssvæðinu er um 1.000 og þar af eru 35 í bæjarlandi.

Um Múlaþing
Múlaþing er stærsta sveitarfélag landsins, 10.671 ferkílómetrar að flatarmáli sem jafngildir rúmum 10% af flatarmáli Íslands. Múlaþing varð til árið 2020 við sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Íbúar Múlaþings eru rúmlega 5.000.

Straumur - nýr miðbær á Egilsstöðum
Getum við bætt efni þessarar síðu?